140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:00]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir fyrra svar sitt. Ein af forsendum þess að mínu viti að útgerðin geti borgað hóflegt veiðileyfagjald sem væntanlega er þá einhvers staðar á bilinu 10–15 milljarðar — það er samdóma álit allra flokka á þingi — er að breytingin á stóra fiskveiðistjórnarmálinu gangi ekki of nærri arðsemi og hagkvæmni greinarinnar. Þar eru menn að horfa til þess hvernig hinn svokallaði leigupottur verður stækkaður, hversu mikið, hversu ört og hvernig hann endar, þ.e. í hvaða stærð, og eins hvort áfram verði við lýði byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun, skelbætur og svo mætti áfram telja. Maður spyr hversu stór hinn frjálsi partur fiskveiðanna ætti að vera á móti hinni hefðbundnu aflahlutdeild sem stærstur hluti kerfisins byggir á.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvernig hann sjái þetta pottakerfi þróast á næstu árum. Ég tel að Framsóknarflokkurinn sé í þessu efni mjög í námunda við stefnu Samfylkingarinnar eða öfugt, stefna Samfylkingarinnar sé í námunda við stefnu Framsóknarflokksins. Hversu langt vill formaður Framsóknarflokksins ganga í þeim efnum?

Að lokum endurtek ég spurninguna sem ég bar upp í fyrra andsvari mínu, það væri gaman að vita þá tölu sem formaður Framsóknarflokksins telur hóflegt og eðlilegt veiðileyfagjald. Eins og ég segi hafa sjálfstæðismenn nefnt 10–12 milljarða og væri gaman að heyra úr barka Framsóknarflokksins þær tölur sem honum eru að skapi.