140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því sem ég náði ekki að svara áðan, um hóflegt veiðigjald. Hv. þingmaður nefnir 10–12 milljarða en það hlýtur að ráðast af afkomu greinarinnar hverju sinni. Þess vegna svaraði ég hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni á þann hátt að beiting tekjuskattskerfisins við innheimtu gjalda af sjávarútvegi sé kannski skynsamlegasta leiðin vegna þess að með því aðlagast gjaldtakan afkomunni á hverjum stað, hjá hverju fyrirtæki og á hverjum tíma. Þetta er þá spurning um hlutfall af hagnaði af greininni á hverjum tíma. Það er nálgunin sem ég held að við ættum að temja okkur miklu frekar en það sem lagt er upp með hér.

Hvað varðar það að breytingar á kerfinu gangi ekki of nærri greininni þannig að hún geti staðið undir greiðslu gjalda og þá vonandi með því fyrirkomulagi sem ég nefndi er ég augljóslega sammála hv. þingmanni um það. Þess vegna hefði verið eðlilegt að fá á hreint hverjar kerfisbreytingarnar eiga að vera áður en við förum að ákveða hversu hátt gjald við ætlum að leggja á greinina. Á meðan við vitum ekki hvers eðlis kerfisbreytingarnar eru, hver aðstaða sjávarútvegsins verður til að skapa verðmæti, erum við ekki í aðstöðu til að meta hversu mikið er hægt að skattleggja greinina. Eins og bent var á í þeim sérfræðiálitum sem ég las upp úr hefði það verið eðlileg röð á vinnu við þessa hluti.

Svo nefndi hv. þingmaður pottana og að við ættum að geta náð samstöðu um þau mál. Þrátt fyrir allt leyfi ég mér að vera bjartsýnn á að það eigi að vera hægt og ítreka bara tillögu sem ég lagði fram áðan um að við sammælumst um það, fulltrúar ólíkra flokka, að fá formann hv. atvinnuveganefndar til að leggja fram (Forseti hringir.) nýjar tillögur.