140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:05]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ótrúleg hringavitleysa sem á sér stað á hv. Alþingi. Hér bulla menn og blaðra út og suður og stjórnarsinnar tala eins og nýgræðingar um sjávarútveg Íslendinga, burðarás íslenska samfélagsins. Jafnvel hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson og Björgvin G. Sigurðsson sem eru frá öflugum kjördæmum verstöðva tala eins og dúkkulísur sem eru að spila matador.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði að veiðigjaldið væri komið niður í svo lága upphæð, niður í 11–12 milljarða. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði að þetta væri ásættanleg niðurstaða og að allir flokkar á þingi væru sammála um að 10–15 milljarðar væru hóflegt gjald.

Virðulegi forseti. Auðvitað eru þessir þingmenn flúnir úr salnum þegar þeir fá í stólinn einhvern sem hefur brim í blóði, pus á enni og þekkir þessa hluti. Þeir stinga sér út og stinga hausnum ofan í sandinn eins og strúturinn. Þeir vilja ekki hlusta á staðreyndir málsins.

Hvað meinar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson þegar hann segir að sátt sé um þetta gjald, 10–15 milljarða? Hvað segja menn í útgerðarsamfélaginu á Akureyri? Á Dalvík? Siglufirði? Í Grímsey? Þeir segja margt og það er ekki í takt við það sem hv. þingmaður segir.

Það sama á við um hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem sagði að gjaldið hefði verið svo hátt í upphafi en nú væri búið að lækka það. Það er farið að prútta um þessa hluti og fagna því að búið sé að lækka þetta þó um helming eða þar um bil. Hvað segja menn í öflugum verstöðvum eins og Grindavík, Vestmannaeyjum, Hornafirði, Garðinum? Þeir eru ekki sammála þingmanninum. Þetta eru ekki bara tillögur sem blóðmjólka sjávarútveginn, þetta eru tillögur sem slátra honum. Það er verið að slátra því sem á að bera samfélagið uppi um ókomna framtíð.

Hvað gera menn þegar búið er að slátra kúnni? Þeir éta hana væntanlega. Hún dugar kannski í einhverja mánuði eða ár. Hvað á að gera svo? Stjórnarsinnar hafa talið landsmönnum trú um að hver þeirra ætti 50–100 milljónir í sjónum og gæti tekið þær skuldlaust á blað hjá sér, lagt inn á banka og ekki haft áhyggjur meir; lifað lífi sínu á rentunum og látið svo reka á reiðanum fyrir íslenskt samfélag. Stjórnarsinnar sjá framtíð Íslands nefnilega í því ljósi að Ísland verði lítið þorp í Tyrklandi sem verður stjórnað frá Brussel með ölmusum og eymingjaskap. Þetta er metnaður stjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hvers eigi Íslendingar að gjalda að búa við þetta ólán? Nóg var að lenda í algjöru bankahruni, að hluta til heimatilbúnu, þó að menn sitji ekki uppi með svona búfjárhaldara.

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem talaði síðast, að skynsemin verður að ráða hér för. Hún felur í sér möguleikana í veiðum og vinnslu sem eru afrakstur greinarinnar. Á því ætti gjaldtakan að byggjast en ekki geðþóttaákvörðunum sjálfskipaðra talsmanna nýbúa á Íslandi í sjávarútvegi, hv. þingmanna úr röðum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Gott dæmi er hv. þm. Björn Valur Gíslason sem hefur komið á vettvang í nýju gervi. Hann fretar á sjónarmið félaga sinna til sjós og lands og puðrar út úr sér hlutum sem enginn skilur nema hann átti sig á því að þingmaðurinn er að þjónka undir hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon. Og sá hugsar bara um eitt. Um hvað hugsar hann eftir áratugadvöl á Alþingi? Hann hugsar um púðann undir rassinum á sjálfum sér, lengra nær ekki metnaðurinn, og svo dustar hæstv. forsætisráðherra rykið úr púðanum af og til.

Nei, virðulegi forseti, það er ekki eitt, það er allt. Gott dæmi um lítilsvirðinguna og dónaskapinn sem hæstv. ríkisstjórn sýnir burðargrein íslensks þjóðlífs og íslensks atvinnulífs kom fram í ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra á sjómannadaginn sjálfan, í gær. Hvað sagði hann sem var svona svívirðilegt gagnvart sjómönnum landsins? Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það var óskemmtilegt að taka sjómannaafsláttinn af sjómönnum til þess að bjarga efnahag íslenska ríkisins.“

Hvað var hann að segja? Fyrir tveimur árum námu hlunnindi af skatti, fríðindi vegna dagpeninga og önnur skattfríðindi, um 6 milljörðum fyrir landsmenn alla. Þar af voru 1.200 millj. kr. vegna svokallaðs afsláttar sjómanna sem er auðvitað ekkert annað en skattfríðindi á sömu nótum og allir milljarðarnir 6 vegna starfa fjarri heimili. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði sem fyrrverandi fjármálaráðherra að erfitt hefði verið að taka þessi hlunnindi af sjómönnum en engum öðrum. Hvað meinar hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra með því að segja svona hluti við sjómenn á sjómannadaginn?

Eina stéttin á Íslandi sem ekki á að njóta fríðinda vegna starfa fjarri heimili er sjómannastéttin. Landkrabbarnir skulu hafa sitt á þurru. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon skal hafa sitt á þurru á sínum silkipúða sem fær endurnýjun frá Brussel þriðju hverja viku en sjómennirnir mega éta það sem úti frýs. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir sjálfstæði Íslendinga, fyrir íslenska þjóð, að þurfa að búa við þessi skilyrði.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlaði svo að bæta um betur í ræðu sinni á sjómannadaginn og segja að það kynni að koma til greina í framtíðinni að sjómenn fengju aftur einhver fríðindi vegna vinnu fjarri heimili. Allir starfsmenn í landinu sem vinna fjarri heimili sínu fá skatthlunnindi sem nema að minnsta kosti 6 milljörðum í heild. Sjómenn áttu þar 18–20% en það bjargaði efnahag landsins að sturta sjómönnum í hafið en láta hina hafa sitt á þurru.

Við sem erum aldir upp í sjávarplássum landsins vitum að þetta gengur ekki. Þetta er slík fásinna og svívirðing að það nær engu tali. Ég ítreka, virðulegi forseti, að stjórnarsinnar hlaupa eins og gráir kettir allt í kringum þinghúsið á meðan við stjórnarandstæðingar erum að tala af því að við segjum hluti sem koma við kaunin á þeim, segjum sannleikann og horfumst í augu við skynsamlega meðferð þessara mála.

Virðulegi forseti. Í öllum stórum málum er það grundvallaratriði að menn nái þokkalegri sátt á Alþingi, annars er fjandinn laus, og þá gildir einu hvort um er að ræða fiskveiðistjórnarmálið, rammaáætlun eða samningu nýrrar stjórnarskrár sem sannarlega eru stór mál. Sagan sýnir hvar sem er í heiminum að öllu máli skiptir að um þau ríki einhvers konar sátt. Það þarf að ríkja um þau þokkaleg sátt þannig að næsta ríkisstjórn taki ekki til við að breyta því sem þessi gerði grimmt og galið og menn skiptist þannig á að kasta fyrir róða reynslu og hefð sem á að vera grundvöllur fyrir jafnvægi í þjóðfélagi eins og á Íslandi.

Nei, nú þarf enga sátt. Nú situr hæstv. forsætisráðherra sem stjórnar öllu með olnbogunum og hefur fylgisveininn Steingrím J. Sigfússon til að hlaupa í kringum í sig. Hann er að vísu búinn að slátra sínum flokki eins og hann ætlar að slátra sjávarútveginum en það er þeirra mál. Við getum í sjálfu sér ekki skipt okkur af því þó að við viðurkennum að það sé óæskilegt. Nei, nú skal nota þekkta aðferð frá Sovétríkjunum, þar þurfti enga sátt, þar var bara tilskipun. Við getum nefnt ríki eins og Nígeríu og Suður-Afríku þar sem þurfti enga sátt, bara tilskipanir. Við getum líka farið yfir í Ameríku og Asíu, en þær þjóðir eru ekki þjóðir sem við miðum okkur við.

Þorri Íslendinga gerir sér grein fyrir því að samkomulag þarf að nást. Aldrei er hægt að krefjast þess að algjör sátt sé um mál en þokkaleg sátt þarf að ríkja, sátt sem kannski þýðir að allir séu hundóánægðir en það dreifist þá jafnt. Það frumvarp sem við ræðum er ekki í þeim dúr. Það er geðþóttaákvörðun nýbúa í pólitík sem töluðu hér rétt áðan og vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Hið ágæta skáld Sigmundur Ernir hefði betur farið með ljóð en það sem fjallað er um þarna. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti minnir ræðumann á að ávarpa hv. þingmenn með fullu nafni og ráðherra með tilheyrandi titli.)

Ég skal taka það til greina, virðulegi forseti. Það er alveg skelfilegt að þurfa að hlusta á hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson fara með svona hluti. Hann er kominn af einhverju hlýðninámskeiði hjá fólki sem hugsar ekki málið til enda. Það er skelfilegt að fylgjast með þeim umsnúningi sem orðið hefur á málflutningi hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingríms J. Sigfússonar sem var yfirleitt rökfastur og fylginn sér í málflutningi þangað til hann lenti undir sæng þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr. Þá er bara allt út og suður. Það á að lemja hlutina í gegn, alls ekki með góðu, helst með illu.

Virðulegi forseti. Það er mikið áhyggjuefni að málið sé komin í þann farveg að reynt sé að gylla hlutina með falsi og útúrsnúningum. Verra er svo að fjölmiðlar á Íslandi taka þátt í þessu, allir með tölu. Þeir eru ekki lengur að segja fréttir, þeir eru að selja fréttir og eru í málatilbúnaði og þar fer Ríkisútvarpið fremst í flokki. Ríkisútvarpið er eins og eitthvert einkafyrirtæki í Afríku sem selur fréttir og hefur geðþóttasýn á alla hluti, slítur úr samhengi, talar ekki við þá sem gagnrýna það sem það er að gera. Ríkisútvarpið þolir ekki gagnrýni. Við sem þekktum Bakkabræður vissum að þeir þoldu gagnrýni og tóku henni vel en íslensku fjölmiðlarnir eru stórhættulegir íslensku samfélagi í dag.

Ég las athyglisvert viðtal við kunna leikkonu, Ágústu Evu, sem lék Sylvíu Nótt, eftir að hún gekk í gegnum þann darraðardans. Flokkurinn sem vann þættina um Sylvíu Nótt ætlaði sér að gera grín að margri sýndarmennskunni í samfélagi okkar og vara við, sýna hvernig allt fór úr böndum, hvernig hlutirnir bjöguðust og skrípaleikurinn óð uppi. Hann ætlaði að gagnrýna hlutina í alvöru svo foreldrar gætu sagt: Heyrðu, þetta er ekki rétta aðferðin, við skulum gera þetta öðruvísi, það á að gera þetta öðruvísi. Nei, nei, það var tekið undir allt. Hópurinn gerði eins mikla vitleysu og hann gat hugsað upp til að gagnrýna, en það var tekið mark á öllu sem hann sagði. Í Kastljóssþætti spurði fréttamaður þessa ungu, glæsilegu og hæfileikaríku leikkonu: Hvað finnst þér um íslenska fjölmiðla? Svarið var einfalt, virðulegi forseti: Íslenskir fjölmiðlar eru drulla.

Þetta er ekki falleg umsögn og það er leiðinlegt fyrir mig sem gamlan blaðamann til margra ára að rifja svona upp. En það er mikið alvörumál að ekki er komið á framfæri neinum sjónarmiðum nema þeim sem henta fréttastjórum ákveðinna stofnana sem eru í einkaeigu og jafnvel í ríkiseigu. Ég ítreka að þar er fréttastofa Ríkisútvarpsins alverst. Það er ekki hægt að taka því vel þegar þær fréttastofur og þeir aðilar sem fjalla um mál reyna að bjaga allt, skekkja það og rugla fólk í ríminu. Fólk almennt, nánast 100%, hefur alveg reynslu og þrek til að taka skynsamlegar ákvarðanir ef það fær tiltölulega hlutlausar upplýsingar. Þær geta verið úr ýmsum áttum, geta bæði verið já og nei, með og á móti, og það er þá fólks almennt að sía út sem því sýnist miðað við lífsmynd sína. Þessu er ekki til að dreifa í dag og þess vegna eru fjölmiðlar á Íslandi eitt það hættulegasta sem er í gangi í landinu okkar. Það er ekki bara að við sitjum uppi með þessa fádæmaríkisstjórn, við sitjum líka uppi með bjögun í þessum hlutum.

Það er mikilvægt að við söðlum um og förum að vinna eins og menn í þessum efnum. Það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar. Einum sýnist eitt og öðrum annað. Þá er að bræða saman og hnýta upp í kaðla sem eru traustir og skapa festu og jafnvægi.

Fyrir nokkrum missirum var sett á stofn nefnd sem kölluð var sáttanefndin. Í henni voru 23 aðilar úr flestöllum geirum samfélagsins sem koma að útgerð, fiskveiðum, vinnslu, sjómennsku og öðrum þáttum. Niðurstaða þeirrar nefndar var kölluð sáttaleiðin. Í sáttaleiðinni var reiknað með því að lagfæra þyrfti fiskveiðistjórnarkerfið, eins og margir í samfélaginu telja, breyta því upp að ákveðnum mörkum, takmarka aflaframsalið að einhverju leyti, kannski verulega, og hnýta upp í stjórnarskrá eignarrétt Íslendinga yfir auðlindum landsins. Það er mjög vandasamt verk, það gera menn ekki með tölvuskeyti utan úr bæ, það gera menn með vinnu færustu sérfræðinga, löglærðra og reyndra í öllu er lýtur að þeim málum. Þetta eru þættirnir sem menn voru sammála um, að skúra gólfið í kerfinu, hækka veiðigjald og freista þess að ná samkomulagi á þeim grunni sem sáttaleiðin byggðist á.

Hvað gerði hæstv. ríkisstjórn við sáttaleiðina? Hún henti henni í humarhristivél sína og skilaði henni í tætlum með geðþóttaákvörðunum sem maður vissi ekki hvort teknar hefðu verið í þröngum kallaklúbbum eða kvennaklúbbum sem héldu að þeir væru að bjarga heiminum með þátttöku í pólitík. Þetta voru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við mikilli vinnu, jákvæðri vinnu, sem ég man ekki betur en að stjórnað hafi verið af Guðbjarti Hannessyni sem þá var ekki orðinn ráðherra. Þetta kom til úrvinnslu hjá ríkisstjórninni en þá sagði hæstv. yfirprímadonna, forsætisráðherra vor: Ég vil þetta ekki.

Þá komu fleiri eins og í ævintýrinu um litlu, gulu hænuna og sögðu: Ekki ég. Ekki ég. Þar með fór þetta allt út og suður, á víð og dreif, og tillögu sáttanefndarinnar var hent ofan í neðstu skúffu og ekki einu sinni sett þar í salt heldur lögð þar sem rykið var mest og minnst von til þess að menn gætu greint hvað í henni stóð.

Þessi vinnubrögð eru að slíta hjartað úr íslensku samfélagi vegna þess að það verður að byggja á því að menn skilji hver annan, virði hver annan og taki tillit til hluta sem skila árangri fyrir þjóðina. Útgerð á Íslandi hefur nánast frá upphafi verið þjóðnýtt í þágu landsins. Á undanförnum áratugum hefur drifkraftur í útgerðinni aukist mjög sem og í vinnslunni, meðferð, og störfum sjómanna og fiskvinnslufólks vegna gífurlegs átaks í markaðssetningu sem hefur stóraukið verðmæti íslensku auðlindarinnar úr hafinu, stóraukið verðmæti tekna af greininni, af þeim sem vinna við hana fyrir íslenska samfélagið. Það er það sem skiptir máli, þetta er afrakstur mikillar vinnu og við þurfum að vernda hana og rækta.

Stjórnarliðar hafa sagt, ótrúlega margir: Það skiptir engu máli hvað við gerum, þetta verður veitt hvort eð er. Svo koma nýliðar og þá spyr maður í sakleysi sínu: Bíddu, eigum við þá að henda fyrir róða allri reynslunni, allri uppbyggingunni, allri markaðssetningunni og á ríkið að taka yfir skuldir í sjávarútvegi? Það er lenska þess fólks sem talar á þessum nótum á Alþingi Íslendinga að gera bara ráð fyrir einu í sjósókn, veiðum og vinnslu, það gerir bara ráð fyrir tekjum. Það eru engar skuldir, það er enginn kostnaður. Þetta er gott dæmi um það hve skammt þetta fólk hugsar, þetta fólk sem á að verja hag landsmanna, sem hafa gríðarlegan hag af því að sjávarútvegurinn blómstri um allt land, fyrir nú utan það að þetta er okkar helsta vörn gegn því að verða þorp í Tyrklandi.

Þess vegna verðum við að umbreyta þeim leiðum sem menn eru að tala um. Við verðum að vinna þetta mál frá A til Ö á nótum sáttaleiðarinnar. Sem betur fer eru þingmenn í röðum stjórnarsinna, þingmenn úr næstum öllum kjördæmum, sem skilja þetta til hlítar og munu aldrei greiða atkvæði með þessari sláturaðgerð sem fyrirhuguð er á sjálfri mjólkurkúnni. Þeir munu aldrei greiða atkvæði með þessu vegna þess að þeir vita hvað þetta er vitlaust og frekt, hversu mikill yfirgangur felst í því og hvað þetta er óskynsamlegt.

Við skulum vera klár á því að þeir sem hagnast vel skulu þurfa að borga og að minnsta kosti ekki minna en aðrir. Tvísköttun á einni atvinnugrein er hins vegar einstakt dæmi í Evrópu. Það er ekki einstakt í Afríku, það var ekki einstakt í Sovétríkjunum en það er einstakt dæmi á Vesturlöndum í dag. Það er því mikilvægt að menn söðli um eins og til að mynda framsóknarmenn hafa flestir haft á lofti. Ég nefni hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson sem margoft hefur sagt að þessu máli verði ekki lokið nema á nótum sátta- og samningaleiðarinnar. Í þeirri leið er gert ráð fyrir öllu því sem við erum að tala um, eins og ég gat um áðan, þar á meðal lagfæringu á fiskveiðistjórnarkerfinu og auknu veiðigjaldi en það verður auðvitað að byggjast á afkomu greinarinnar, ekki í heild heldur verður að skoða hvern rekstraraðila fyrir sig því að aðstæður eru misjafnar eins og gefur að skilja. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gat líka um það í ræðu sinni rétt áðan.

Við skulum nefna tvö dæmi, virðulegi forseti. Til landsins kom nýlega glæsilegasta skip íslenska flotans. Vel að merkja, íslenski fiskveiðiflotinn er sá elsti í heimi, hér er elsta samsetning skipaflota hjá einni þjóð sem kallast veiðimannaþjóð, fiskveiðiþjóð. Hún býr við elsta flota í heimi. Þá sér maður að ekki hefur verið mikið borð fyrir báru því að lenskan er sú að útvegsmenn um allt land hafa að öllu jöfnu lagt allt sitt í það að byggja upp fyrirtæki sín. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði fyrr í dag að þess væru mörg dæmi að útgerðarmenn hefðu skilið sjávarpláss um landið eftir í auðn. Af hverju segir hv. þingmaður hér ósatt?

Dæmi eru um að menn hafi gengið of langt í þessum efnum en sem betur fer eru það undantekningar og gildir þá einu hvort verið er að tala um Gugguna á Ísafirði, söluna frá Sandgerði til Akraness og síðan til Granda í Reykjavík og einstaka dæmi önnur sem eiga miklu fremur skýringar í ákveðnu reynsluleysi í mörgum plássum þar sem þessi grunnur hafði ekki fastar rætur. En í öflugu sjávarútvegsfyrirtækjunum um allt land, Reykjavík er þar með talin sem hefur mesta kvóta allra verstöðva á Íslandi, 12%, hafa menn skilað árangri, tekjum, öryggi og afkomu til þjóðarinnar.

Nýjasta skipið sem ég gat um, Heimaey VE-1, smíðað í Síle, kostar um 4 milljarða kr. Ætli það kosti ekki mikla vinnu og mikla áhættu að reka það skip? Næstsíðasta skip til öflugustu verstöðvar landsins, Vestmannaeyja, Þórunn Sveinsdóttir, kom fyrir liðlega ári og kostaði 2,4 milljarða. Líklega var grunneign þessa rótgróna fyrirtækis sem lét byggja skipið 400 milljónir. Útgerðin reiknar með 24–25 árum til að borga niður þessa milljarða með eðlilegri kröfu, ekki ofurkröfu, í afkomu, að þetta gangi slysalaust fyrir sig með nokkru öryggi. Þetta er hin raunsanna mynd af sjávarútveginum og það verður að vera borð fyrir báru til að svigrúm gefist til að endurnýja flotann okkar og tækjabúnaðinn, treysta vinnu um allt land, treysta tekjur þúsunda fólks sem vinnur við sjávarútveginn, bæði til sjós og lands. Það eru ekki bara nokkur þúsund sjómenn, það eru mörg þúsund iðnaðarmenn og aðrir í landi sem byggja á því að sinna þessum öfluga atvinnuvegi. Sjávarútvegurinn er stærsta atvinnugrein í einu landi í Evrópu. Við Íslendingar erum eina sjálfstæða þjóðin í Evrópu sem erum fiskveiðiþjóð. Þannig eigum við að koma fram, bera virðingu fyrir hlutunum, gera okkur grein fyrir því að við erum með gullmola í höndunum þar sem auðlindin er. En til að það skili sér þurfa menn að geta sótt af öryggi og reisn á þann erfiða vettvang sem hafið er. Það hefur kostað dýrari skip að auka öryggi en það hefur líka þýtt fækkun slysa og komið í veg fyrir manntjón. Á síðustu öld fórust 500 sjómenn bara í verstöðinni Vestmannaeyjum, á 100 árum, fimm á ári. Þetta hefur ekki átt sér stað um árabil vegna þess að menn hafa tekið höndum saman um að auka öryggið og kosta til þess peningum.

Það kemur ekkert af sjálfu sér í þessum efnum og við getum ekki lokað augunum fyrir því að lífið þarf að hafa sinn eðlilega gang. Það er lykillinn að því að við getum búið í sátt og samlyndi í þessu landi. Það gengur ekki að afgreiða stóru málin, hvort sem eru fiskveiðistjórnarmálið, rammaáætlunin eða stjórnarskráin, nema í þokkalegri sátt. Það gengur ekki með kúbeini, ekki með járnköllum, ekki með offorsi og yfirgangi, menn verða að kunna að slíðra sverðin og slípa til sáttar, annars heldur darraðardansinn bara áfram eins og ég gat um fyrr í ræðu minn, annars lemur þessi ríkisstjórn þetta í gegn, svo kemur önnur og snýr því til baka og svo kemur þessi aftur og snýr því aftur til baka. Hvaða mynd er á slíku þjóðfélagi? Þá er jafnvel betra að hafa gamaldags Sovét hérna. Þar var ekkert verið að súta það, þar var mönnum bara sagt að fara til fjandans og halda sig á mottunni. Við Íslendingar erum þó enn að baksa við að þurfa ekki að flýja aftur til Noregs.

Við trúum því að sú saga sé sönn að Íslendingar hafi sótt til Íslands vegna ofríkis fyrirmanna í Noregi. Maður biður þess heitt og innilega að dæmið snúist ekki við og að við þurfum að flýja okkar land. Hér eigum við alla möguleika á að ná mestum árangri, árangri sem getur talist bestur meðal þeirra þjóða sem hafa mestan metnað, hvort sem er í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, rannsóknum eða náttúrumöguleikum en til þess verðum við líka að rækta atvinnulífið. Hvað þýðir það ef við ræktum ekki atvinnulífið, ef við ruggum bátnum og látum reka á reiðanum? Það þýðir að fjölskyldur á Íslandi tapa vinnu, tekjum og möguleikum til að lifa af í okkar stórkostlega landi.

Það er verðugt umhugsunarefni og tengist þessu að sjálfsögðu að um 10 þús. Íslendingar hafa nú flúið Ísland, flæmst frá Íslandi vegna atvinnuleysis. Ætlum við að láta þá týnast sem Íslendinga í Noregi þar sem þeir eru vinsælir vegna dugnaðar síns? Eða ætlum við að ná þeim heim aftur? Auðvitað eigum við að ná þeim heim aftur. Við eigum að gera allt sem við getum til þess — og við getum það. En til þess þurfum við líka að vinna í sátt en ekki beita gerræðislegum aðferðum eins og verið er að gera hér. Þess vegna á núna að draga þessi mál til baka, taka tíma í að ná sátt á nótum sáttaleiðarinnar sem allir hagsmunaaðilar í íslensku samfélagi komu að og skiluðu spennandi niðurstöðu til að vinna úr en því miður var það hunsað. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka þann þráð upp aftur.