140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það er nokkuð ljóst að áhyggjur þingmannsins fara vel með áhyggjum margra annarra þingmanna, sérstaklega stjórnarandstöðunnar, ég hygg reyndar margra stjórnarliða líka sem hafa enn ekki talað hér um hvernig komið er fyrir undirstöðuatvinnugrein okkar. Hv. þingmaður man það kannski betur en ég hvernig ástandið var upp úr 1980, 1980–1983, þegar ákveðið var að setja á það kerfi sem við búum við í dag. Þá vorum við með óhagkvæman sjávarútveg. Við veiddum allt of mikið. Það endaði í rauninni með því að ráðgjafar og vísindamenn sögðu að annaðhvort yrði að verða breyting hér á eða auðlindin kláraðist einfaldlega.

Nú er svo komið að við rekum einhvern hagkvæmasta sjávarútveg sem sögur fara af að því er ég best veit. Það getur svo sem vel verið að til sé hagkvæmari sjávarútvegur. Horft er til Íslands meðal annars frá Evrópusambandinu og ríkjum þess um hvernig stýra eigi veiðum. Við erum með sjávarútveg sem ekki er ríkisstyrktur. Við erum hins vegar að keppa úti í heimi við ríkisstyrktan sjávarútveg sem er væntanlega búinn að vera það í mörg ár, jafnvel tugi ára, vegna þess að þar hefur mönnum ekki tekist að skapa umhverfi utan um atvinnugreinina og gera hana arðbæra.

Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn deili þeirri skoðun með mér að það gæti verið afturhvarf til fyrri tíðar, að við yrðum með óhagkvæman sjávarútveg ef sú vegferð er gengin til enda sem hér er boðuð þar sem fyrirtækin yrðu rekin, langflest, með tapi. Það er nú stutt síðan, árið 2005, þegar útgerðir (Forseti hringir.) kvörtuðu yfir háu gengi krónunnar og erfiðleikum í rekstri.