140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:52]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin spurning að orð hæstv. sjávarútvegsráðherra í ræðu sinni á sjómannadaginn eru einsdæmi í framkomu gagnvart sjómönnum landsins. Það er, því miður, aðeins eitt um það að segja að hæstv. sjávarútvegsráðherra er ekki treystandi. Hann mismunar mönnum. Öll þau fríðindi sem hafa byggst á því að fólk vinnur eða ferðast fjarri heimilum sínum, það á ekki að eiga við um sjómenn sem manna mest eru fjarri heimilum sínum að vinna við erfiðar aðstæður. Þetta er svívirðileg framkoma, virðulegi forseti, og ótrúlegur dónaskapur við sjómannastéttina og lítilsvirðing.

Það er engin spurning að flestir eru sammála um það og sáttaleiðin gerir ráð fyrir því að auka ætti veiðigjald, að takmarka ætti framsalið þannig að það færi kannski úr 50% í 75% eða 80%. Það er samningsatriði. Það er svigrúm. En framsalsrétturinn er lykillinn að þessu kerfi. Hann er lykillinn að kerfinu, líka gagnvart nýliðun og öðru, en bara þannig að menn geti náð hagræðingu og nýtingu út úr þeim afla sem þeir hafa til umráða. Þessir menn í miklum meiri hluta hafa þraukað erfiða vetur í útgerð. Þess vegna eiga þeir að fá að njóta þess þegar betur árar.

Það er nú þannig, virðulegi forseti, að auka ætti þorskkvótann með fullum rökum um lágmark 100 þús. tonn við næstu úthlutun. Það raskar í engu módeli vísindamanna, en sýnir bara að menn eiga að byggja á reynslu og verksviti.