140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:57]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvert einasta orð í ályktun fundarins í Eyjum í dag, á fimmta hundrað manna fundi, er satt og rétt. Það sýnir einfaldlega skynsamlega og hlédræga afstöðu til þessara mála, það er mikil kurteisi í þeim texta. Það er ekki lúkarsstíll í því eins og við reynum stundum að tala hér í þinginu, að tala mannamál, en þetta bréf er vel orðað og byggt á fullum rökum. Verið er að gera aðför að kjörum sjómanna, landverkafólks, landsbyggðarinnar og landsmanna allra vegna þess að með þeirri aðferð sem á að framkvæma er verið að slátra sjálfri mjólkurkúnni. Það er verið að slátra henni. Það er ekki verið að taka af henni einhverjar sneiðar — nei, það er verið að höggva hana að hætti Sturlungaaldar.

Þetta er það sem við þurfum að horfast í augu við. Þetta orð, sægreifi, er óorð sem er komið á dugmikla útvegsmenn af blaðamanni á Morgunblaðinu á sínum tíma, óorð, það átti að vera fyndið en var auðvitað ekkert fyndið. Svona tala menn ekki við þá sem eru að berjast fyrir því að halda uppi atvinnu og rekstri oft við erfiðar aðstæður.

Því miður er það svo með hæstv. forsætisráðherra að henni virðist orðið tamt, virðulegi forseti, að horfast ekki í augu við neinar staðreyndir og fer hrakandi með hverju árinu í þeim efnum og leggur alltaf höfuðáherslu á það að renna blint í sjóinn. Það gerir ekki vant fólk.