140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrrnefndur fundur — nú vitna ég beint í þessa frétt aftur, með leyfi forseta — „skorar á stjórnvöld, sérstaklega þá ráðherra sem málið varðar og formann atvinnuveganefndar Alþingis að koma í heimsókn til Vestmannaeyja, svo fljótt sem verða má, til þess að tala við okkur og hlusta á okkar sjónarmið.“

Maður veltir fyrir sér, hvernig má það vera að lögð séu fram frumvörp sem umturna undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar án þess að menn hafi haft fyrir því að ræða við það fólk sem málið varðar? Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að það væru þingmenn í stjórnarliðinu sem gerðu sér fulla grein fyrir afleiðingum þessara frumvarpa, hversu skaðleg þau væru, og umræddir þingmenn mundu þar af leiðandi aldrei styðja þau. Ég óttast hins vegar að það sé helst til mikil bjartsýni hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé rétt mat hjá hv. þingmanni að í stjórnarliðinu sé fólk sem geri sér fulla grein fyrir því hversu skaðleg þessi frumvörp eru, en maður óttast það í ljósi reynslu liðinna ára að umræddir þingmenn verði á einn eða annan hátt neyddir til að styðja þessi frumvörp.

Deilir hv. þingmaður ekki þeim áhyggjum með mér? Hefur hv. þingmaður einhverja von um að breyting verði á hvað varðar samráð við fólk sem starfar í greininni? Telur hv. þingmaður einhverjar líkur á að orðið verði við þeirri beiðni frá Vestmannaeyjum, samhljóða beiðni frá 417 fulltrúum á fundi um að ráðherrar komi til Vestmannaeyja að ræða við fólk sem starfar í greininni?