140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er öfugsnúið að tala um hlutina eins og hv. stjórnarþingmenn og ráðherra hafa gert, fyrst að kerfið sé svo vont og þessir aðilar geti vel greitt þessa fjármuni og horfa svo á það að þeir leggja á sama tíma til að kerfinu verði rústað, kerfinu sem skapar þessa arðsemi.

Það er líklega rétt hjá hv. þingmanni, fáar atvinnugreinar hafa náð þessum árangri. En við megum ekki gleyma því heldur þótt sagan sé með þessum hætti að það er ekki lengra síðan en 2005 sem greinin var í miklum vanda vegna hás gengis krónunnar. Ég var að lesa viðtöl og greinar við aðila er störfuðu, og starfa vonandi enn, í sjávarútveginum þar sem mjög svart var fram undan, þar sem menn sáu varla fyrir að þeir ættu fyrir veiðarfærum og öðru og svo að standa í skilum með lán. Það er stutt á milli bjartra tíma og svartra í þessari grein því að hún sveiflast gríðarlega mikið.

Ég hygg þó að það sem sjávarútvegskerfið hefur skilað okkur einna mest sé hagkvæmt sjávarútvegskerfi. Við erum með hagkvæma grein sem byggir á hugviti og framtakssemi þeirra sem í greininni eru, ekki ríkisstyrkjum. Er það það sem við viljum taka upp? Mér sýnist nefnilega að við getum endað með sjávarútveg líkt og þann sem er til dæmis í Noregi, þar sem er ríkisstyrktur sjávarútvegur, ef þessi frumvörp ná fram að ganga. Við eigum að reyna að ná einhverri lendingu um að greinin geti á hverjum tíma greitt skynsamlega til ríkisins. Það er engin skynsemi (Forseti hringir.) að mínu viti í því sem hér er lagt til.