140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annaðhvort erum við að mínu viti að tala um að við verðum áfram með einkarekinn sjávarútveg, sjávarútveg sem er sjálfbær, eða við erum að tala um að færa sjávarútveginn meira og minna inn í einhvers konar opinbert batterí. Ef sjávarútvegurinn á að vera sjálfbær hlýtur hann og verður að geta skilað arði til að fyrirtækin geti fjárfest og vaxið og dafnað. Það er eðlilegt að fyrirtæki sem starfa við þær aðstæður bregðist við hækkun á kostnaði með því að skera niður, með því að mæta þeim kostnaði einhvers staðar. Ef það gerir það ekki rúllar það á endanum og fer á hausinn, það segir sig sjálft. Það er áhyggjuefni fyrir sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið ef fyrirtækin þurfa að bregðast við með því að selja einn bát, selja togara eða hætta að landa heima. Það er kannski styttra að landa í Reykjavík og þá missa bílstjórarnir sem vinna við að keyra fiskinn vinnuna sem og löndunarkarlarnir. Þetta hefur allt áhrif í þessu samfélagi. Á þetta verðum við að hlusta og horfa.

Þess vegna óttast ég að ef þessi frumvörp ná fram að ganga, tölum bara um veiðigjaldið núna, muni það setja mörg þessara fyrirtækja í þá stöðu að þurfa að mæta þessum aukna kostnaði með því að draga saman, með því að aðlaga sig þá breyttu fyrirkomulagi sem mun á endanum þýða í það minnsta að sjómenn taki með einhverjum hætti þátt í kostnaðinum meira en er í dag sem og uppsagnir á starfsfólki. Þetta er nákvæmlega það sem kemur fram í þeim athugasemdum sem við höfum fengið við þessi frumvörp.

Ef við búum við það lúxusvandamál að sjávarútvegurinn sé vel rekinn og menn vilja skattleggja hann skulu menn bara gera það skynsamlega þannig að greinin sé ekki sett í uppnám þannig að fyrirtækin sem eru til staðar í dag leggi upp laupana. Það er (Forseti hringir.) algjörlega galið að halda því fram að það sé einhver betri leið til að veiða fiskinn og vinna úr honum en þeir sem eru í greininni í dag fara.