140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom inn á í hluta ræðu sinnar í sambandi við vinnubrögðin í þessu máli. Mig langar að vitna orðrétt í það sem kom frá þeim sérfræðingum sem atvinnuveganefnd fékk til þess að vinna fyrir sig, með leyfi forseta:

„Það var mat höfunda að tilgangslaust væri að meta áhrif frumvarpsins í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki er líklegt til að standa undir þeim álögum.“

Þannig var niðurstaða þeirra sérfræðinga sem atvinnuveganefnd fékk til að fara yfir málið. Mér er ekki kunnugt um að nokkur einasti þingmaður í stjórnarflokkunum hafi gert athugasemd við þau vinnubrögð að fara fram með frumvörpin eins og þau eru án þess að vita nokkurn hlut um hvaða áhrif þau hefðu á fyrirtækin eða sjávarbyggðirnar. Það kemur kannski fram í umræðunni ef hv. stjórnarliðar sjá sér fært að taka þátt í henni.

Væri ekki æskilegt eftir að meiri hlutinn er farinn að gera þessar breytingartillögur að skoða sérstaklega hvaða áhrif þetta hefði á fyrirtækin, ég tala nú ekki um landsbyggðina, og rifja upp akkúrat það sem gerðist við fjárlögin fyrir árið 2012? Þá var lögð fram tillaga frá velferðarráðuneytinu um að skera niður í heilbrigðisstofnunum úti á landsbyggðinni því að það er alltaf sama aðförin að landsbyggðinni hjá ríkisstjórninni. Hvað gerðist þá?

Það var lögð fram tillaga, reyndar gerðu einstaka hv. þingmenn stjórnarflokkanna athugasemdir, en síðan þegar ráðuneytið sjálft fór í gegnum tillögurnar sem það lagði fram og lagði inn í hv. fjárlaganefnd áður en málið var afgreitt kom í ljós að mati ráðuneytisins sjálfs að margar þær tillögur sem voru lagðar fram voru ekki framkvæmanlegar, það var ekki hægt að fara eftir þeim.

Það var ráðuneytið sjálft sem vann þá faglegu vinnu og því spyr ég hv. þingmann hvort ekki væri æskilegt að fara ítarlega yfir það, eftir að þessar breytingartillögur liggja fyrir, hvort þetta sé eins og bent er á (Forseti hringir.) í umsögnum þessara tveggja manna.