140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að við skulum horfa á breytingartillögur sem sérfræðingar, ef ég skil þetta rétt, telja engu máli skipta, að þær hafi engin áhrif eða séu lítið til bóta, kannski eitthvað samt, varðandi þetta frumvarp. Við hljótum að velta því fyrir okkur. Þar af leiðandi er ósköp eðlilegt að gera þá kröfu að gefið verði svigrúm til að fara í gegnum þessa breytingartillögu með sérfræðingum til að sjá hvar er breyting til bóta og allt það.

Heildarmyndin er hins vegar alltaf sú sama, það var farið af stað með málið í miklum flýti og ekki vel að því staðið í upphafi. Við vitum alveg af hverju það er. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra lagði fram tillögur að breytingum til laga í þessum sjávarútvegsmálum. Þær tillögur fengu vægast sagt kaldar kveðjur þegar þær komu inn í ríkisstjórnina, tillögur hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Síðan var skipt um ráðherra og nýr ráðherra, kannski eðlilega, vildi setja fram sín mál en þau komu bara svo seint fram. Auðvitað var það vegna þess að hæstv. ráðherra hafði haft lítinn tíma til að móta frumvörpin. Það sem við fáum út úr því er hraðsoðið plagg. Ég ætla ekki að segja að það sé viljandi gert en málið virðist bara ekki nógu vel unnið. Það er væntanlega vegna þess að allt of lítill tími var gefinn til að vinna það.

Þegar menn sitja við borð einhvers staðar inni í lokuðu herbergi eins og þar sem þetta frumvarp var samið og reyna að skiptast á hugmyndum í staðinn fyrir að vinna það í breiðri sátt þar sem allir þurfa einhvern veginn að miðla málum hlýtur niðurstaðan að verða í þeim dúr sem við erum nú með í þinginu.