140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einfaldlega þannig gerð að ég er bjartsýn, stundum ofurbjartsýn, og hef gaman af lífinu. Já, ég verð að segja að þetta er hægt. Þá gætu menn sagt: Bíddu við, þá eruð þið í stjórnarandstöðunni bara að slátra málinu, þetta tekur svo mikinn tíma og mikil vinna sem hefur verið unnin fer þá forgörðum. Það er ekki þannig. Þegar menn hlusta á ræðurnar og það sem stjórnmálamenn í öllum flokkum hafa sagt er hægt að ná ákveðnu samkomulagi og ákveðinni sátt ef menn bara þora að segja: Já, við skulum byrja upp á nýtt.

Dagurinn hér í dag byrjaði hins vegar ekki gæfulega þegar forsætisráðherra kom frekar krumpaður til leiks og gaf upp boltann, þennan ófriðarbolta, og tendraði ófriðarbálið strax í byrjun þessa þingfundar. En eins og ég segi er ég bjartsýn engu að síður og fagna því sérstaklega að forustumenn stjórnmálaflokkanna setjist niður til þess að reyna að ræða sig að ákveðinni niðurstöðu. Það er tilefni fyrir mig til þess að vera bjartsýn.

Það væri náttúrlega best, og þá verð ég ofurbjartsýn, ef forustumenn Samfylkingarinnar viðurkenndu einu sinni að þetta væri einmitt þeirra pólitíska sérhagsmunamál. Þetta pólitíska sérhagsmunamál þeirra er að verða ansi dýrkeypt fyrir brag þingsins og vinnubrögðin en ekki síst fyrir þjóðina. Það væri náttúrlega heppilegast, en já, svo ég svari spurningunni, það er hægt að byrja upp á nýtt, það er búið að vinna mikið, það er hægt að nýta þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og ef menn leggja sig fram er allt hægt.