140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað á hv. þingmann halda ræður og koma í andsvör. Ég tek undir með honum þegar hann beinir sjónum sínum að því hvernig menn hafa talað þessa atvinnugrein niður, í hvaða frasapólitík ekki síst þingmenn Samfylkingarinnar eru þegar sjávarútvegurinn hefur verið ræddur. Umræðan um þetta tengist líka til dæmis birtingarmynd álveranna, að þau skapi engin störf. Ég held að enginn viti betur en við Hafnfirðingar hversu gríðarlega mikil fjárhagslegu áhrifin af álverinu eru í héraði, ekki bara beinu heldur líka þessi óbeinu með alls konar mikilvægum verkefnum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Nákvæmlega það sama á við um sjávarútveginn. Ég sakna þess að þingmenn suðvesturhornsins, ekki síst þingmenn stjórnarflokkanna, taki þátt í þessari umræðu. Af hverju gera þeir það ekki? Það væri kannski ágætt að fá upplýst á eftir hversu margir þingmenn stjórnarflokkanna eru á mælendaskrá. Eins og ég fór yfir í ræðu minni felast gríðarlegir hagsmunir fyrir fyrirtæki á suðvesturhorninu, hvort sem er í Hafnarfirði, Kópavogi eða Reykjavík, í þessum beinu og óbeinu áhrifum af sjávarútveginum. Ég ætla ekki að draga fram stærsta útgerðarfyrirtækið sem er HB Grandi, eða Stálskip heima í Hafnarfirði eða Sjólaskipin eða önnur sem hafa verið í tengslum við sjávarútveginn vítt og breitt, ekki bara um landið heldur víðar um höf, heldur litlu fyrirtækin eins og málmsmiðjurnar. Ég skal fara með hv. þingmann í bíltúr um svæðið eins og ég bauð hæstv. forsætisráðherra þar sem menn sjá svo greinilega nákvæmlega hvaða (Forseti hringir.) áhrif sjávarútvegurinn hefur á mannlífið í Hafnarfirði. Þess vegna er skömm að því að forustumenn bæjarins skuli ekki hafa skoðun á því hvaða áhrif þetta hefur á hann.