140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Það er hárrétt að afleidd störf af álverinu í Straumsvík hljóta að skipta hundruðum eða þúsundum í kjördæmi þingmannsins og vitanlega langt út fyrir það líka. Ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram og hef ekkert á bak við mig þó að ég segi það hér, ég ætla samt að segja það, að þjónusta við sjávarútveg og iðnað sé líklega einhver stærsta atvinnugreinin í Hafnarfirði og jafnvel í Suðvesturkjördæmi. Ég ímynda mér að það sé þannig. Síðan kæmi hugsanlega verslun og eitthvað þess háttar á eftir.

Þegar maður keyrir um Hafnarfjörð og þessi bæjarfélög sér maður alveg ótrúlega mörg smá og stór fyrirtæki, vélsmiðjur, rafverktaka, sérhæfð fyrirtæki og tölvufyrirtæki sem þjónusta ýmsar greinar. Ég veit til dæmis ekki betur en að risastór vélsmiðja í Hafnarfirði þjónusti álverið þar sem tugir eða hundruð manna vinna. Þegar menn ráðast á þessa atvinnugrein verða menn að horfa á þetta.

Það eru að sjálfsögðu mikil vonbrigði að sveitarstjórnin og borgarstjórnin skuli ekki gera sér grein fyrir áhrifunum. Ef við horfum á umsvifin í Reykjavíkurhöfn er þar fullt af bátum og skipum, þar er slippurinn og það er svo margt í kringum höfnina sem menn verða að taka með í reikninginn. Um það eru allir sammála og það kemur mjög vel í ljós í fréttum í dag að um leið og keðjan hikstar gerist eitthvað. Við erum búin að sjá fréttir í dag um að minna sé að gera hjá þeim sem selja kost. Fiskverð hefur rokið upp á mörkuðum því að menn sjá fyrir sér að það verði skortur á fiski. Um leið og keðjan rofnar fer allt á annan endann.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir þetta í ræðu sinni og það er ánægjulegt að heyra að margir (Forseti hringir.) gera sér grein fyrir því að ekki eingöngu landsbyggðin er undir í þessu.