140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held beinlínis að það sé rangt að tala um þetta sem eingöngu landsbyggðarmál. Ég hef sagt mína skoðun á því.

Ég get líka nefnt til sögunnar Vélsmiðju Orms og Víglundar af því að hv. þingmaður er að tala um mikilvæg fyrirtæki sem hafa verið stór heima í Hafnarfirði. Það er ávallt gaman að sjá skip í slipp heima, það er bara þannig, þá veit maður að það er eitthvað að gerast. Núna hefur það hins vegar ekki gerst mjög oft. Þar eru málamyndaviðgerðir, það eru ekki þessar stóru fjárfestingar sem voru áður af því að fjárfestingarfrost hefur verið hjá útgerðinni síðustu þrjú ár miðað við þá samninga sem voru ekki gerðir fyrir hrun. Það er verið að uppfylla samninga, við sáum það meðal annars með komu Heimaeyjar, en heima í Hafnarfirði hefur þjónustan minnkað, umfangið snarminnkað segja mér fróðari menn um þessi mál, vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað í sjávarútveginum. Samfylkingin ber höfuðábyrgð á því og líka Vinstri grænir.

Þess vegna er svo vont þegar menn byrja daginn á að finna þennan ómögulega takt hjá forsætisráðherra. Ég vil leyfa mér að vitna til langömmu minnar, það hnussaði mikið í henni þegar manni hennar var hælt, sjómanni í Leirunni, að hann kynni svo vel að binda hnúta. Þá sagði hún: Ja, það er ekki bara málið að kunna að binda hnútana, það þarf ekki síður að kunna að leysa þá. Ég held að þetta væri ágætisveganesti fyrir hæstv. forsætisráðherra, þrátt fyrir að sýna staðfestu í ákveðnum málum þarf á endanum að leysa þau, ekki bara setja allt í frost, það þarf líka þíðu.