140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að tekið hefði verið tillit til þeirra málefnalegu athugasemda sem komu fram á fundum í hv. atvinnuveganefnd og hvatti til þess að frumvörpin yrðu samþykkt eins og þau liggja fyrir núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hv. þingmaður hafi engar áhyggjur af því að þetta auðlindagjald, ásamt öðrum breytingum sem hún kom inn á í ræðu sinni, muni geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir sjávarútvegsbyggðir á Vestfjörðum þar sem hv. þingmaður þekkir vel til. Ég spyr í ljósi þess að í þeim umsögnum sem liggja fyrir, frá einstaka sveitarfélögum á Vestfjörðum, ég nefni sérstaklega Vesturbyggð, er varað við þeim afleiðingum sem af geta hlotist. Telur hv. þingmaður búið að girða fyrir það í breytingartillögum meiri hlutans að þær afleiðingar geti orðið sem þar er bent á?

Ég spyr jafnframt hv. þingmann, sem er fulltrúi Vinstri grænna í atvinnuveganefnd og hefur verið meðal ráðgjafa við samþykkt þessara frumvarpa, hvernig hv. þingmanni gat dottið í hug að samþykkja að þessi frumvörp yrðu lögð svona fram. Gerði hv. þingmaður einhverjar athugasemdir við það í þingflokki Vinstri grænna þegar samþykkt var að leggja þessi frumvörp fram? Hafði hv. þingmaður uppi einhver varnaðarorð um afleiðingarnar sem þessi frumvörp gætu haft í byggðum úti á landi?

Spurningarnar eru skýrar og ég ætlast til þess að fá skýr svör en ekki einhverja frasaumræðu eins og svo oft verður.