140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fullyrti í útvarpsviðtali í morgun að sá sérfræðingur sem nefndin hefur haft að störfum, Daði Már Kristófersson, teldi útgerðina geta greitt þau veiðigjöld sem við ræðum hér. Það er rangt eins og svo margt í málflutningi hennar. Það hefur einmitt komið fram hjá honum að gagnrýni hans standi óbreytt miðað við þær forsendur sem lagt var upp með í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu.

Starfsgreinasamband Íslands segir, með leyfi forseta:

„Það er ámælisvert að stjórnvöld hafi ekki framkvæmt ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin munu hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni.“

Verkalýðsfélag Akraness segir:

„Stjórn Verkalýðsfélags Akraness getur ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt áðurnefnd lagafrumvörp á meðan ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á hvaða áhrif þessi frumvörp hafa á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks, sjómanna og síðast en ekki síst byggðir þessa lands.“

Drífandi, stéttarfélag í Vestmannaeyjum segir:

„Engin skoðun hefur farið fram í undirbúningi frumvarpsins hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á kjör almenns verkafólks í sterkum sjávarbyggðum, þar sem ljóst er að áhrifin munu koma hvað skýrast fram.“

ASÍ segir að of langt sé gengið í frumvarpinu með sértækum aðgerðum og þetta muni veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. ASÍ spyr hvaða áhrif þetta muni hafa á launahlutfall fiskverkafólks og sjómanna í sjávarútvegi og hvort sjávarútvegsfyrirtækjunum sé stefnt í voða með sérstöku veiðigjaldi.

Virðulegi forseti. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Deilir hún þeim sjónarmiðum sem koma fram í þessum örfáu umsögnum af fjölmörgum sem bárust frá verkalýðsfélögum, verkalýðsforustunni og ég dreg hér fram? Eða er hún þeirrar skoðunar að búið sé að gera nægar kannanir á þessum frumvörpum, á áhrifum þeirra á sjávarbyggðir og á kjör fólks í greininni, að fyrir liggi nægar upplýsingar (Forseti hringir.) til að hægt sé að afgreiða þessi mál?