140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það liggur fyrir að Landsbankinn hefur metið það sjálfur að hann muni tapa tugum milljarða króna. Hann er stærstur fjármálastofnana í viðskiptum við sjávarútveginn þannig að tap hans verður eðlilega mjög mikið. Þetta skiptir milljörðum króna og þetta er í rauninni ágætisdæmi um þá þversögn sem felst í þeirri vinnu sem stjórnarliðar leggja hér fram og áherslum, þ.e. að á sama tíma og það er vitað að þetta muni draga úr getu eða virði þessara stofnana, þar með talið þeirrar ríkiseignar sem í Landsbankanum er, er kynnt hér og gefið til kynna að það sé hægt að taka úr henni arð með einhverjum þeim hætti sem væri áður en þetta mál kæmi til. Undirbúningurinn að þessu er allur í skötulíki og ég segi alveg eins og er að mér finnst það ekkert skrýtið því að ef maður rýnir það sem stjórnarliðar hafa sagt í þessu máli er engin sannfæring fyrir þessu meðal þeirra sjálfra í orðum sem maður getur dregið upp. Þeir hrekjast horn úr horni eins og förumaður að reyna að selja handónýta vöru.

Stundum liggur við að maður kenni í brjósti um þá að þurfa að bera fram svona ömurleg mál, en ég held að viðkvæmnin fyrir því hjá manni sé löngu liðin. Þetta er ein þriðja eða fjórða atrennan sem þeir gera með sömu vöruna og hún er alltaf jafngölluð og það vill enginn líta við henni, en svo einkennilegt sem það er halda þeir alltaf áfram og berja höfðinu við steininn og koma aftur og aftur í heimsókn með kolgallað eintak.