140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi byggðamálin í þessum efnum nægir í rauninni að vitna til orða oddvita Vopnafjarðarhrepps, Þórunnar Egilsdóttur, (BJJ: Góðrar framsóknarkonu.) góðrar framsóknarkonu sem lét ríkisstjórnina, eins og maður segir á góðri norðlensku, heyra það óþvegið. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum efnum og það er raunalegt að upplifa hér að harðasti andmælandi þessa frumvarps er sá sem leggur það fram. Ef maður tekur bara, eins og það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vitnaði hér til, ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar frá árinu 1997 og breytir um ártal á henni gildir hún sem besta andmælaræða við þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra leggur fram, því miður.

Svo háttar til að hann er ekkert einn um þessi hamskipti í stjórnarliðinu. Ég skil til dæmis ekki hvernig í ósköpunum hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson ætlar að standa að þessu máli. Hv. þm. Sigmundur Ernir viðhafði þessi orð á Norðfirði í maí 2011, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegurinn á áfram að vera rekinn á viðskiptalegum forsendum. Ég hafna algjörlega frá núlli og upp í hundrað pólitískum afskiptum af þessari grein.“ (BJJ: Já.)

Þetta er hv. þingmaður Samfylkingarinnar í stjórnarliðinu sem ber ábyrgð á því að þetta frumvarp liggur hér fyrir. Á sama fundi, ef ég man rétt, viðhafði hv. þingmaður þau orð að höfuðvandi og viðfangsefni ríkisstjórnarinnar væri að berjast við atvinnuleysi. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni hvort hann teldi að það frumvarp sem hér liggur fyrir mundi auðvelda Norðfirðingum að kljást við atvinnumálin, þvert á það sem forsvarsmenn bæjarfélagsins og atvinnulífsins hafa haldið fram í eyru hv. þingmanns.