140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið þær upplýsingar að átta af níu fulltrúum í atvinnuveganefnd séu í húsi. Auk þess vil ég þakka sérstaklega hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarti Hannessyni, fyrrverandi formanni endurskoðunarnefndarinnar svokölluðu, sem situr hér í salnum með okkur í gegnum þessa umræðu.

Þegar ég fór að skoða frumvarpið um veiðigjöld vildi ég nálgast það, eins og önnur mál á Alþingi, út frá hugsjónum mínum og hugmyndafræði sem byggist á grunnstefnu Framsóknarflokksins, samvinnu- og framsóknarstefnunni. Nokkuð hefur verið um að þingmenn, og þá sérstaklega stjórnarliðar, hafi komið hingað upp og rætt stefnu Framsóknarflokksins og því fannst mér tímabært að ég færi sem framsóknarmaður aðeins í gegnum hana og skýrði hvernig ég vil nálgast þetta mál út frá henni.

Í grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins sem var samþykkt á flokksþingi 2001 eru það helst atriði sem varða náttúrugæði og búsetuskilyrði sem ég vil fara yfir, með leyfi forseta:

„Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.“

Og í IX. gr. segir:

„Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.“

Umrætt frumvarp tel ég skipta miklu máli hvað varðar búsetuskilyrðin. Við tölum líka um mikilvægi þess að tryggja jafnræði þegnanna:

„Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.“

Ég tel að við framsóknarmenn höfum nálgast málin út frá þessum atriðum á 31. flokksþingi okkar 2011 þegar við samþykktum síðast stefnu okkar í sjávarútvegsmálum. Við teljum að greiða eigi fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi og að það eigi að vera hóflegt og tengt afkomu greinarinnar. Þeir sem hafa vitnað í stefnu okkar hafa svo yfirleitt stoppað hér, hafa ekki lesið lengra niður síðuna. En frá því að ég fór að starfa með Framsóknarflokknum hefur alltaf verið talað um annað atriði tengt veiðigjaldinu og það er það hvernig því verður ráðstafað, hvernig við tryggjum jafnræði þegnanna og hvernig við tryggjum búsetuskilyrði um allt land. Það er 5. liðurinn í sjávarútvegsstefnunni, með leyfi forseta:

„Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem veiðigjaldið verður til, t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.“

Þetta er nokkuð sem ég hafði séð í fyrri frumvarpsdrögum frá hæstv. þáverandi ráðherra Jóni Bjarnasyni. Bæði var þar verið að tala um greiðslu fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi og að hækka það umfram það sem það er núna en líka að það gjald ætti að hluta til að skila sér til þeirra byggða þar sem verðmætin eru sköpuð, hluti ætti að fara aftur inn í atvinnugreinina til að búa til ný og fjölbreytt störf og hluti mundi síðan renna í ríkissjóð.

Ég vil aðeins fara yfir það fyrir hvað samvinnustefnan stendur. Við leggjum mjög mikla áherslu á að við náum mun betri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar, að eina leiðin til að tryggja samkeppni í samfélaginu sé að dreifa valdi án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar, að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafi hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað, þar sem manngildi er sett ofar auðgildi. Og gildin eru sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða. Þau gildi endurspeglast síðan í áherslum samvinnumanna og sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsinga til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

Það er líka sterkt einkenni á samvinnufélögunum sjálfum að þeir sem eru að vinna eða eiga viðskipti við viðkomandi samvinnufélög eiga að njóta góðs af því. Það sem þeir uppskera á raunar að endurspegla framlag þeirra. Ég get ekki séð að svo sé í þessu frumvarpi. Frumvarpið felur að mínu mati í sér landsbyggðarskatt. Meginþorri þeirra tekna sem verða til í sjávarútveginum verður til úti á landi. Þó að sjávarútvegurinn sé hlutfallslega stór líka hér í Reykjavík er langstærsti hluti hans úti á landi.

Við skulum skoða aðeins hvernig ástandið er núna og hugsa út í jafnræði þegnanna og mikilvægi þess að tryggja fólki sambærileg búsetuskilyrði hringinn í kringum landið. Mig langar í því sambandi að fjalla aðeins um rannsóknir og greinar eftir Vífil Karlsson, hagfræðing og dósent við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst. Hann hefur um árabil lagt stund á svæðarannsóknir sem eru sérsvið innan hagfræðinnar og sér töluverða samsvörun á milli nýlendustefnu fyrri aldar og yfirgangs Reykjavíkurvaldsins gagnvart landsbyggðinni. Hann segir að um 75% af öllum umsvifum hins opinbera séu í Reykjavík en að ríkið fái aðeins rúm 40% skatttekna sinna þaðan. Þegar Ísland er skoðað út frá aðferðafræði svæðahagfræðinnar telur hann koma í ljós að hér á landi sé um vansköttun að ræða í Reykjavík en ofsköttun í öðrum landshlutum sem leiði af sér efnahagslegan leka á öðru svæðinu en efnahagslega innspýtingu á hinu. Þessu má líkja við að verið sé að beita stjórntækjum hins opinbera sem ganga meðal annars út á hækkun skatta eða niðurskurð opinberra framkvæmda á hagvaxtarskeiðum til að draga úr ofþenslu. Því er svo öfugt farið á samdráttarskeiðum.

Í erindi sem Vífill Karlsson flutti á Ísafirði í apríl 2011, Afl í auðlindum Vestfjarða, er fjallað um það hvernig umsvif hins opinbera hafa áhrif. Ef ætlunin er að örva kreppuhagkerfi getur hið opinbera aukið atvinnustigið með lækkun skatta, með auknum útgjöldum og auknum fjárfestingum. Hið opinbera getur síðan dempað hagkerfið með því að draga úr atvinnustigi, hækka skatta og draga úr fjárfestingum. Þegar horft er á þær ákvarðanir sem núverandi stjórnvöld virðast vera að taka gagnvart landsbyggðinni mætti halda að þar væri bullandi þensla, jafnvel í þeim byggðarlögum þar sem fólki hefur fækkað mjög undanfarin 15 ár, eins og fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar sem kynnt var í dag.

Með frumvarpinu er lögð til hækkun skatta á landsbyggðina. Verulega hefur verið dregið úr útgjöldum og vil ég í því sambandi fá að rifja upp svör við fyrirspurn hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um störf á landsbyggðinni. Hann spurði sérstaklega um störf á heilbrigðisstofnunum á 139. löggjafarþingi og í framhaldinu var að sönnu aðeins dregið úr þeim niðurskurði. Ég vona að hæstv. velferðarráðherra kannist eitthvað við þessi svör sín við fyrirspurn hv. þingmanns:

„Helstu niðurstöður eru eftirfarandi. Á landsbyggðinni má ætla að starfsmönnum fækki um samtals 456 einstaklinga (312 stöðugildi), verði ekki breytingar á frumvarpinu í meðförum þingsins. Af þeim fjölda má gera ráð fyrir að 369 einstaklingar (253 stg.) séu konur.“

Síðan hafa líka ansi margir fengið á tilfinninguna að ekki sé mikill áhugi á því hjá núverandi stjórnvöldum að auka fjárfestingar úti á landi í ljósi lítils áhuga á því að nýta orkuauðlindir okkar. Tilfinningin hefur líka verið sú að væntanlega væri auðveldara og einfaldara að fá hreinlega lista yfir það sem má gera en það sem ekki má gera miðað við þau viðbrögð sem áhugasamir fjárfestar hafa fengið.

Ég ætla að halda aðeins áfram með Vífil Karlsson. Hann bendir á að hið opinbera hefur stækkað alveg gífurlega, með leyfi forseta:

„Hið opinbera hefur frá árinu 1980 vaxið úr því að velta rúmum 35% af vergri landsframleiðslu í tæp 50%. Á sama tíma hefur landsframleiðslan aukist verulega. Í dag er velta hins opinbera að nálgast 400 milljarða króna ár hvert og því skiptir verulegu máli hvar þessum peningum er ráðstafað.“

Hann segist hafa komist að því í rannsókn sinni að um væri að ræða landfræðilegt misræmi á milli Reykjavíkur og annarra landshluta:

„Já, það er landsbyggðin sem hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið notið þess. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum mínum eru 75% af öllum umsvifum hins opinbera í Reykjavík einni. Það fær þó ekki nema 42% af skatttekjum sínum frá borginni.“

Vífill segir að þetta sé sýnu alvarlegra í ljósi þess að viðskiptamynstur á milli svæðanna séu mjög ólík. Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu séu hlutfallslega meiri en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Þess vegna er líklegt að sá skaði sem landsbyggðin hefur orðið fyrir vegna þessa misræmis sé meiri en hann hefði orðið ef verslun höfuðborgarbúa væri meiri við landsbyggðina. Að sama skapi má draga þá ályktun að ef misræmið hefði verið á hinn veginn, þ.e. í hag landsbyggðarinnar, hefði höfuðborgarsvæðið ekki orðið fyrir jafnmiklum skaða og landsbyggðin hefur orðið fyrir því að fólk af landsbyggðinni sækir svo mikla þjónustu til höfuðborgarsvæðisins.

Vífill segir, með leyfi forseta:

„Eins og þetta er í dag þá má líkja þessu við nýlendustefnu ýmissa ríkja hér áður fyrr þegar nýlendur voru skattpíndar en sjóðirnir síðan fluttir heim til nýlenduherranna. Ef áhugi er fyrir því að gefa svæðunum jafnari forsendur til hagvaxtar, þá eru þetta sterkar vísbendingar fyrir því að það þurfi annaðhvort að færa til stofnanir eða lækka skatta á landsbyggðinni …“

Það er svo eilítið kaldhæðnislegt að í þessu tímariti, Rannís-blaðinu, má sjá ágæta ljósmynd af þingflokksformanni Samfylkingarinnar, Magnúsi Orra Schram.

Þegar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að vinna það frumvarp sem segja má að hafi verið lykilástæðan fyrir því að hann þurfti að víkja sæti sem ráðherra fékk hann Vífil Karlsson til að skrifa stutta álitsgerð um það hvernig best væri að standa að veiðigjöldunum. Í upphafi þeirrar álitsgerðar fer hann í gegnum það hvernig þéttbýlismyndun á Íslandi þróaðist. Síðan talar hann um hvernig vöxturinn var í frumvinnslugreinunum og segir, með leyfi forseta:

„Framan af 20. öldinni var mikill vöxtur í frumvinnslugreinunum. Almenningur lét ekki sitt eftir liggja heldur fylgdi uppbyggingunni eftir og byggði sér heimili en sveitarfélögin byggðu upp nauðsynlega þjónustu af ýmsu tagi. Frá upphafi níunda áratugarins hafa frumvinnslugreinarnar farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Þessi samfélög hafa setið uppi með fjárfestingar sem heft hafa uppbyggingu á þeirri þjónustu sem íbúar gera kröfu til í dag. Afleiðingarnar eru þær að myndast hefur stór gjá á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu að þessu leyti sem hefur í raun stigmagnað vandann. Möguleikar þessara sveitarfélaga til að auka tekjur sínar fara stöðugt þverrandi þar sem íbúum fjölgar mjög lítið eða jafnvel fækkar.

Þegar horft er til uppruna og ráðstöfunar opinbers fjármagns benda bráðabirgðaúttektir til að annarri hverri skattakrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Það grefur undan staðbundnum hagvexti á landsbyggðinni. Þessu þyrfti að vera öfugt farið á svæðum sem farið hafa í gegnum þá miklu endurskipulagningu og þrengingar sem þeim fylgdu frá upphafi níunda áratugarins og nefndar voru áðan.

Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga. Með því er báðum sjónarmiðum mætt, þ.e. í fyrsta lagi að stuðla að því að ekki verði enn frekari samdráttur á landsbyggðinni og í öðru lagi að veiðigjaldið fari frá þeim sem nýta auðlindina og til þjóðarinnar í gegnum rekstur hins opinbera og almannaþjónustu.

Þetta er einnig mikilvægt í ljósi þess að fjárhagur margra þessara sveitarfélaga er ekki góður af þeim sökum sem áður sagði og mörg þeirra nutu ekki ávaxta svokallaðs góðæris. Þá var gengi íslensku krónunnar sterkt um tíma og nærri sögulegu hámarki sem setti enn meiri pressu á útflutningsgreinar eins og sjávarútveginn. Samhliða skerðingu í aflaheimildum hafa þessi samfélög því varið hendur sínar með skuldsetningu til að halda fyrirtækjunum gangandi og svigrúm til annarra framkvæmda hefur verið í lágmarki. Veiking krónunnar hefur vissulega snúið þessu við en á móti blasa við afborganir þeirra lána sem nýtt voru til varnarbaráttu á góðæristímanum.

Þess utan er þetta mikilvægt til að stuðla að dreifðri búsetu í landinu. Ísland er ríkt af náttúruauðlindum sem hefur alltaf verið forsenda fyrir byggð í landinu. 90% allra útflutningstekna í landinu koma frá atvinnugreinum sem nýta sér náttúruauðlindirnar: Sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta (frítímaiðja). Færa má rök fyrir því að starfsemi þessara atvinnugreina yrði mun óhagkvæmari ef hún væri ekki stunduð dreift um landið. Nútímasamfélagi verður ekki haldið úti á Íslandi nema með öflun erlends gjaldeyris og við núverandi aðstæður skiptir hvert pund máli.

Þegar hugað er að endurgreiðslu veiðigjaldsins til sveitarfélaganna þyrfti að finna hlutfall, h, fyrir hvert og eitt þeirra sem tæki mið af staðbundnu ráðstöfunarhlutfalli — þ.e. hversu háu hlutfalli íbúarnir ráðstafa af tekjum sínum innan sveitarfélagsins. Þetta hlutfall lækkar eftir því sem nær dregur höfuðborgarsvæðinu en þetta hlutfall mældist 74% (af ráðstöfunartekjum) á Austfjörðum fyrir rúmum tíu árum svo dæmi sé tekið.

Síðan þarf að finna veiðigjaldsstofninn, A, sem er hlutur hvers sveitarfélags í veiðigjaldinu eða heildarveiðigjald þeirra lögaðila og einstaklinga sem búa í viðkomandi sveitarfélagi (lögheimili).“

Síðan fer Vífill Karlsson í gegnum formúlur sem hann ráðleggur ráðuneytinu að hafa til hliðsjónar um það hvernig best væri að reikna út veiðigjaldið og tiltekur þrjár mismunandi leiðir þar sem hægt væri að taka tillit til allra þeirra þátta sem hann nefnir. Þar er einn þátturinn staðsetning veiðislóðanna þar sem aflinn er sóttur. Það væri þá til dæmis vægi tiltekins sveitarfélags í heildarveiðigjaldi, vægi tiltekins sveitarfélags í heildarlaunum sjómanna og síðan vægi tiltekins sveitarfélags í heildarafla á Íslandsmiðum. Þetta skrifar Vífill Karlsson í Borgarnesi 18. nóvember 2011.

Þegar maður flettir frumvarpi fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, má sjá ákveðna viðleitni í 28. gr., hann setur fram tillögu um hvernig best væri að ráðstafa veiðigjaldinu. Talað er um að 50% tekna af veiðigjaldi hvers fiskveiðiárs skuli renna í ríkissjóð, 30% til ráðstöfunar sveitarfélaga og síðan er tilgreind ákveðin skipting á veiðigjaldinu og loks segir að 20% tekna af veiðigjaldi skuli nýtt með það að markmiði að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun ásamt sameiginlegum markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.

Það má svo sem sjá þessa skiptingu í leigu á aflaheimildum en ég varð mjög hissa að sjá ekkert um það efni í frumvarpinu. Að vísu er talað um reglugerð um nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og síðan er talað um að veiðigjaldið á þessu ári ætti allt að fara í ríkissjóð, enda veitir ríkissjóði víst ekki af eins og fram kom í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir helgi.

Ég hef svo sem greint það í andsvörum og máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hann hefur í hyggju að fylgja þessum tillögum eftir hvað varðar veiðigjaldið. Hann hefur lagt áherslu á að það sem hann sé ósáttastur við í breytingunum á þessum tveimur frumvörpum snúi einmitt að því að búið sé að hreinsa út alla byggðatengingu. Mér finnst það líka svolítið einkennilegt að þeir þingmenn sem hvað harðast tala fyrir þessu máli á þingi séu nánast allir úr landsbyggðarkjördæmum. Framsögumaðurinn, hv. þm. Björn Valur Gíslason, er þingmaður í Norðausturkjördæmi, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir er þingmaður í Norðvesturkjördæmi og síðan situr hér líka 1. þm. Norðvesturkjördæmis.

Menn hafa bent á að nýja fjárfestingaráætlunin, sem ríkisstjórnin kynnti 18. maí 2012, eigi að koma til móts við þau áhrif sem verða af þessari aukaskattlagningu. Þá þótti mér mjög áhugavert að fletta upp áherslunum, ekki síst í ljósi þess sem fram kom í greinargerð Vífils Karlssonar um lykilatvinnugreinarnar úti á landi, þ.e. nýtingu á náttúruauðlindum. Tilefni þótti til að taka það sérstaklega fram á kynningarfundi sem haldinn var um þessa fjárfestingaráætlun að nú ætti sannarlega ekki að púkka upp á svona gamaldags atvinnugreinar, að nú ætti að búa til nýtt og spennandi atvinnulíf, skapandi greinar, græna hagkerfið, nýsköpun, tækniþróun og rannsóknir og sérstaklega ætti að taka á húsnæðismálum.

Að vísu var aðeins minnst á að fara þyrfti í ýmsar verklegar framkvæmdir en þegar ég fletti þeim upp sá ég ekki betur en að um væri að ræða framkvæmdir sem stóð til að fara í áður en þessi áætlun var kynnt. Ég nefni sem dæmi nýjan Herjólf. Hæstv. innanríkisráðherra er löngu búinn að tilkynna að ætlunin væri að fara í nýjan Herjólf. Ríkisstjórnir sem sátu á undan þeirri sem nú situr voru meira að segja búnar að tala um það en því var frestað eftir hrunið. Einnig er talað um að Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum verði flýtt. Þetta eru sem sagt framkvæmdir sem lengi hefur verið stefnt að.

Í ljósi reynslunnar á ég erfitt með að sjá hvaða tryggingu landsbyggðin hefur fyrir því að þessir fjármunir muni skila sér aftur til sjávarbyggðanna. Ég hefði verið rólegri ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði lagt það til í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram á að fara að spurt yrði um ákvæði er varðar jafnræði íbúa landsins út frá búsetusjónarmiðum. Hv. þm. Jón Bjarnason lagði ásamt hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fram breytingartillögur sem voru felldar og sneru einmitt að því að tryggja búsetuskilyrði og jafnræði þegnanna hringinn í kringum landið.

Ef við skoðum umsagnir sem borist hafa um málið tekur Byggðastofnun líklega skýrustu afstöðuna í þessu máli þó að margir hafi verið ansi ákveðnir í umsögnum sínum. Forstjóri Byggðastofnunar, Aðalsteinn Þorsteinsson, segir síðast í bréfi sínu:

„Færa má fyrir því rök að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, enda stór hluti aflaheimilda bundinn fyrirtækjum þar.“

Eins og ég nefndi áðan var að koma skýrsla frá Byggðastofnun þar sem farið er í gegnum íbúaþróun, atvinnulíf og stöðu þeirra byggðarlaga sem háð hafa hvað mesta baráttu á undanförnum 15 árum, þar sem fólki hefur fækkað mjög mikið og menn hafa þurft að hafa virkilega mikið fyrir hlutunum. Eitt af þeim byggðarlögum er Vestmannaeyjabær og ég vitna hér í umsögn Vestmannaeyjabæjar, með leyfi forseta, og raunar bókun bæjarráðs hvað varðar þetta frumvarp:

„Sá landsbyggðarskattur sem kallaður er auðlindagjald er fáheyrt hár. Boðað auðlindagjald hefði verið 5 milljarðar fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum árið 2010 af 24 milljörðum fyrir landið allt. Það gerir sértæka gjaldheimtu upp á tæplega 1,2 milljónir pr. íbúa í Vestmannaeyjum einungis það ár. Slíkur sértækur skattur kemur ofan á allt annað sem íbúar og atvinnulífið í Vestmannaeyjum greiðir til jafns á við aðra.

Ósanngirnin og óréttlætið í því að leiða gríðarlega skattheimtu yfir landsbyggðina þegar loks sjást þar merki um hagvöxt er alger.

Skattlagning á borð við það sem boðuð er í frumvarpinu merkir að endurnýjun tækja, samfélagsleg uppbygging, framþróun í veiðarfæragerð, framþróun tæknibúnaðar, uppbygging mannvirkja, þróun markaða, aukinn virðisauki sjávarfangs og fleira kemur til með að sitja á hakanum.“

Bæjarstjórn Vesturbyggðar fékk ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið KPMG til að vinna álit sem fylgdi umsögn hennar á því hvaða áhrif boðaðar lagabreytingar kunni að hafa á Vesturbyggð. Þar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan er sú að að minnsta kosti 220 milljónir fari í greiðslu á veiðigjaldi og kvótastaðan muni minnka. Þá eru líkleg viðbrögð útgerðarinnar og tengdra fyrirtækja að að minnsta kosti 6–8 starfsmönnum verði sagt upp, auk ófyrirsjáanlegra afleiddra áhrifa. Telur KPMG að þetta sé mjög varlega áætlað. Bein áhrif á bæjarsjóð vegna útsvarslækkunar eru metin allt að 19 milljónir og er það líka mjög varlega áætlað. Með þessu má álykta að tæpar 300 milljónir flytjist frá Vesturbyggð til Reykjavíkur.“

Þegar ég fór vestur í fyrra sannfærðist ég í þeirri stuttu heimsókn um að sveitarfélögin þar hafa ekki þetta aukafjármagn til ráðstöfunar. Þau eru bara að berjast fyrir sínu.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Reynslan hefur sýnt að heldur ólíklegt er að þeir fjármunir skili sér til baka. Þá meta stjórnendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í Vesturbyggð það svo að rekstur þeirrar þoli ekki margföldun veiðigjalds og að þau verði gjaldþrota á mjög stuttum tíma ef greiða á allt að 70% af rekstrarafgangi til ríkisins.

Vandséð er hvernig þessum frumvörpum er ætlað að styðja við áform um að byggja upp öflugri samfélög á landsbyggðinni. Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir jafnframt á ályktun fjórðungsþings Fjórðungssambands Vestfirðinga árið 2011 um auðlindagjald, sem segir:

„56. fjórðungsþing Vestfirðinga haldið í Bolungarvík 2.–3. september 2011 skorar á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir.“

Útreikningar KPMG leiða í ljós að 3–12 milljónir komi í hlut Vesturbyggðar af útleigu aflaheimilda. Sú upphæð er aðeins brotabrot af þeim fjármunum sem tapast úr samfélaginu við lagabreytinguna.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar varar stjórnvöld við að taka vanhugsaðar ákvarðanir sem geti stuðlað að hruni í sjávarútvegi og tengdum greinum, atvinnuleysi og þar með fólksflótta á landsbyggðinni. Þau varnaðarorð sérfræðinga sem fylgja lagafrumvörpunum og þeir útreikningar óháðra aðila sem sveitarfélögin hafa látið vinna ættu að vera ærin ástæða fyrir alþingismenn að endurskoða frumvörpin, frekar en að stuðla að lögfestingu þeirra og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins. Má í því sambandi nefna mögulega lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkun útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er.“

Undir þetta ritar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Nú þegar seinni hluti ræðu minnar nálgast vil ég velta upp þeim ábendingum sem berast frá Starfsgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandinu. Það skal alveg viðurkennt að það er óskaplega auðvelt fyrir mig og aðra að segja að allir séu á móti þessu máli og að allir gagnrýni það en það er hins vegar mikilvægt að halda því til haga að menn setja fram mjög ólík sjónarmið þegar þeir skila inn umsögnum og gagnrýna þetta mál. Þess vegna er áhugavert að fjalla aðeins um þessar umsagnir og ekki síst umsagnir verkalýðsfélaganna, fulltrúa þess fólks sem vinnur í greininni, annars vegar fiskvinnslufólksins og hins vegar sjómannanna sjálfra.

Í bókun við margumtalaða endurskoðunarskýrslu bókaði Sjómannasambandið meðal annars ágreining um niðurstöðu hinnar miklu sáttanefndar. Það lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja að sjómenn fái sem réttlátastan hlut í verðmætunum og lagði til ákveðna þætti. Það tók undir það að auðlindin væri sameign þjóðarinnar. Síðan var sambandið með bókun um að mikilvægt væri að verð á markaði réði í uppgjöri við sjómenn. Óháð því hvort landað væri beint í vinnslu eða fiskurinn seldur á markaði ætti markaðsverð að ráða í uppgjöri við þá. Til að tryggja að svo yrði þyrfti að verða ákveðinn bókhaldslegur aðskilnaður á milli veiða og vinnslu.

Ef það er síðan tengt við þá umsögn sem barst frá Starfsgreinasambandinu leggur það mikla áherslu á að kjarasamningar séu til staðar eða einhver rammi sem tryggi þeim sem starfa um borð í flotanum okkar ákveðin lágmarkskjör. Ég hef sagt það á vefsíðu minni að ég geti tekið undir það sem Sjómannasambandið og Samtök fiskútflytjenda hafa sagt. Ég tek þó fram að ég tel hóflegt veiðigjald nauðsynlegt og að ein leið til að tryggja að það skili sér aftur felist í tillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. En það sem mér finnst áhugavert hér, og það snertir samvinnumannshjartað, er að ef við tryggjum starfsfólki í greininni sanngjarnari og réttlátari hlut í verðmætunum skilar það sér líka í sameiginlega sjóði þjóðarinnar, það skilar sér í gegnum skattkerfið sem við höfum nú þegar og það skilar sér sérstaklega til sveitarfélaganna vegna þess að einn stærsti tekjuliður sveitarfélaganna, sjávarbyggðanna, er útsvarið. Tekjur sjómanna skipta því gríðarlega miklu máli fyrir þau.

Ég hef líka velt fyrir mér hvort ekki sé til leið til að tryggja hlut þeirra sem starfa við fiskvinnsluna því að fiskvinnslan á Íslandi er orðin hátæknigrein og þar skiptir framlag starfsfólks í fiskvinnslu við að auka verðmæti aflans verulega miklu máli. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé til leið til að tryggja betur hlut þess. Eins og hlutirnir hafa verið undanfarin ár, og það á ekki bara við um þá ríkisstjórn sem nú situr, má segja að ríkisstjórnin sé orðin þriðji aðili við borðið þegar kemur að kjarasamningum. Það hefur svo sannarlega sýnt sig að það sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á skiptir máli.

Sjómannasambandið bendir einnig á að útgerðarmenn muni leita allra leiða til að velta byrðinni af sérstaka veiðigjaldinu yfir á sjómenn með tilheyrandi tekjuskerðingu. Það kom fram á mbl.is í kvöld að þegar væri komið fram útspil, því að kjarasamningar eru lausir og málið er hjá ríkissáttasemjara, þess efnis að byrðinni yrði velt yfir á sjómenn. Þetta gagnrýnir Sjómannasambandið alveg sérstaklega.

Ef við komum aftur að byggðasjónarmiðunum sem ég hef talað um er líka mikilvægt að skatttekjurnar skili sér aftur til sjávarbyggðanna sjálfra. Ég er ekki að tala um að allt eigi að fara þangað en fólkið úti á landi er líka þjóðin.

Starfsgreinasambandið bendir á, með leyfi forseta:

„Það er ámælisvert að stjórnvöld hafi ekki framkvæmt ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin munu hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni. SGS hefði talið eðlilegt að slík rannsókn hefði farið fram áður en svo viðamiklar breytingar á stjórn fiskveiða væru gerðar. SGS vill að slík rannsókn fari fram án tafar.“

Síðan er líka talað um að mikilvægt sé að gerðar séu auknar kröfur til að gæta gæða hráefnisins og að tryggja þurfi að landsbyggðin fái að ráðstafa hluta af tekjunum til að styrkja byggðirnar og vinna þannig gegn þeirri byggðaröskun sem frumvarpið getur haft í för með sér. Starfsgreinasambandið telur þannig æskilegt að hærra hlutfalli af þeim tekjum sem veiðarnar gefa af sér verði úthlutað beint til sveitarfélaga og landshlutasamtaka. Auk þess er bent á að þarna sé um að ræða stéttir með lausa kjarasamninga.

Að lokum vil ég fara í gegnum nokkur orð sem látin voru falla 1997. Þar talar maður sem að minnsta kosti hluti stjórnarliða vill taka mark á, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Þá var hann alþingismaður og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Steingrímur sagði augljóst að veiðigjald mundi draga úr mætti fyrirtækja í sjávarútvegi til að byggja sig upp fyrir framtíðina. Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Hann segir að fyrir sér sé málið ekki flókið og ekki þurfi að eyða tíma í að rífast um það fram og aftur. Þessu megi með einföldum orðum lýsa á eftirfarandi hátt:

„Sá hagnaður, í tapárum það eigið fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið, færi út úr fyrirtækjunum og út úr byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. Það er morgunljóst.“

Steingrímur lýsir því svo hvernig staðan hefði orðið á Austfjörðum og ég hugsaði einmitt þegar ég las þetta að nánast hefði verið hægt að skipta út þessu plássi, (Forseti hringir.) Neskaupstað, fyrir hvaða aðra sjávarbyggð sem er.