140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna aftur. Eins og ég sagði í ræðu minni talaði ég einmitt um grundvallarstefnu Framsóknarflokksins og þá hugmyndafræði sem hún byggist á. Ég held að hún geti hjálpað mjög mikið og samvinnuhugmyndafræðin hjálpar að minnsta kosti mér þegar ég er að nálgast mál. Hún er um það að þeir sem vinna í greininni eigi að njóta góðs af vinnu sinni. Það er grunnhugsunin við rekstur samvinnufélaga.

Þess vegna nefndi ég sérstaklega bókun Sjómannasambandsins og Samtaka fiskútflytjenda sem kom fram í skýrslunni sem var unnin af endurskoðunarnefnd sem hv. þingmaður var formaður fyrir, bókun um hvernig við getum tryggt hærri laun starfsmanna í greininni. Ég sé það ekki í þessum frumvörpum. Ég sé ekki að það sé komið til móts við það. Ríkissjóður fær hóflega hlutdeild en síðan má spyrja: Hvernig getum við tryggt (Forseti hringir.) að starfsmennirnir fái sem hæst laun? (Forseti hringir.) Þeir komu með ákveðnar tillögur en þær virðast því miður hafa verið hunsaðar.