140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hvar þessi hv. óbreytti þingmaður Steingrímur J. Sigfússon er staddur í dag vegna þess að þetta virðist vera einhver annar maður en starfar í þinginu akkúrat núna.

Frú forseti. Það þarf svo sem ekki miklu að bæta við þetta. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þessi ofurskattheimta muni hafa slæmar afleiðingar á landsbyggðina og þau stöndugu sjávarútvegsfyrirtæki sem þar starfa auk þeirra fyrirtækja sem eru að reyna að koma sér á legg í þeirri ágætisárstíð sem nú er yfirstandandi fyrir sjávarútveginn.

Þá spyr ég hv. þingmann: Hvað gengur hv. stjórnarliðum til með því að reyna að koma þessu í gegnum þingið? Okkar hæfustu sérfræðingar hafa lagt fram gögn sem sýna að það sé varla hægt að reikna út þessa aðferð sem upphaflega átti að nota og að það hefði skilið öll sjávarútvegsfyrirtæki landsins nánast eftir í rjúkandi rúst. Hvað gengur fólki til með að leggja fram svona mál? Er þetta aðferðafræðin um að leggja fram nógu ömurlegt frumvarp (Forseti hringir.) og bakka svo aðeins til að reyna að ná sátt um það? Hvað telur hv. þingmaður að hér búi að baki?