140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst erfitt að fullyrða nákvæmlega um ástæðuna fyrir þessu. Mér finnst þetta að mörgu leyti mjög einkennilegt. Eins og ég nefndi áðan eru mjög margir af þeim þingmönnum sem sitja í atvinnuveganefnd í þingsal miklir talsmenn landsbyggðarinnar hringinn í kringum landið og hafa jafnvel byggt sinn feril sem stjórnmálamenn upp á því að berjast fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar, ekki þannig að þeir telji að hlutirnir eigi að vera betri en í Reykjavík heldur að jafnræðis sé gætt, að menn búi við sambærileg kjör.

Ég lýk máli mínu með því að vitna í þáverandi hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þar sem hann fer í gegnum það hvað Síldarvinnslan í Neskaupstað hafði verið að gera með miklar fjárfestingar, með leyfi forseta:

„Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. (Forseti hringir.) Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum (Forseti hringir.) á sínum heimaslóðum.“