140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svara því fúslega. Dæmið um olíuauðlindir í Mexíkó annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar valdi ég vegna þess að það er stöðugur straumur fólks frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Ástæðan fyrir því að ég nefndi það dæmi er sú að þar sé um að ræða sameign á auðlindinni hefur ekki reynst þeirri þjóð mjög vel. Þær voru reyndar þjóðnýttar. Þær höfðu áður verið í einkaeign en voru þjóðnýttar.

Þá kem ég að þeim þætti sem snýr að Noregi. Ég er þeirrar skoðunar að ef um er að ræða náttúruauðlind þar sem engin nýtingarsaga er til staðar eða þar sem ríkið á raunverulega nýtingarsöguna, eins og á til dæmis við um stóran hluta af orkuauðlindum á Íslandi, snúi dæmið allt öðruvísi. Þá vísa ég aftur til þeirrar hugmyndar sem ég lýsti áðan, t.d. hjá John Locke, um hvernig eignarrétturinn myndast vegna hefðar eða nýtingar. Þar sem ekki er um að ræða nýtingarsögu einstaklinga heldur ríkisins myndar það auðvitað grunninn. Þannig var það með olíuauðlindirnar í Noregi.

Svo er annað mál hvort það verði eða sé þannig að Norðmenn gætu haft það í raun enn þá betra vegna þess að þegar horft er til mannfjöldans í Noregi eru auðlindirnar þar alveg gríðarlegar. Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til umræðunnar í því landi. Það eru ekki allir þar sammála um að Norðmenn geri þessa hluti best. Það hafa verið færð fyrir því veigamikil rök að í raun sé um að ræða nokkra sóun sem felist til dæmis í norska olíusjóðnum og hvernig honum er ráðstafað. Það er önnur umræða en aðalatriðið er að það dæmi sem ég tók af Mexíkó og Bandaríkjunum snýr að því sem ég nefndi áðan en það er ekki þannig að allar auðlindir verði sjálfkrafa í eigu einstaklinga. Þar ræður nýtingarsagan mestu um hver fer með þetta, en ég tel að lesa megi úr sögunni þann lærdóm að þeim þjóðum hafi að öllu jöfnu farnast best sem hafa treyst á nýtingarrétt (Forseti hringir.) einstaklinganna fremur en á fyrirkomulag sem byggir á því að stjórnmálamennirnir ráði.