140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja eitt vegna orða hv. þingmanns. Við erum kannski sammála um það, og það kom mér svolítið á óvart í ræðu hv. þingmanns, að það sé betra að auðurinn leiti út úr þessum fyrirtækjum þannig að hann sé fjárfestur inn í greinina og síðan í aðra starfsemi ef menn hafa klárað nauðsynlegar fjárfestingar en síðan innheimti ríkið eðlilegan skatt af því öllu saman, skatt af sjávarútvegsfyrirtækjunum sem og af þeim fjárfestingum sem sjávarútvegsfyrirtækin ráðast í annars staðar.

Við hv. þingmaður þekkjum það af því að við höfum rætt þessi mál áður í þingsal að við verðum sennilega seint sammála um þann þáttinn sem hv. þingmaður nefnir, þann sem snýr að fyrirkomulagi fiskveiðanna. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að koma því þannig fyrir að við búum til sem mestan auð úr þessu. Það þýðir auðvitað og hefur þýtt það á undanförnum árum og áratugum að störfum hefur fækkað, það er alveg augljóst. Það þarf núna færri hendur en áður til að vinna sama magn af afla. Afkoma fiskvinnslu- og sjávarútvegsfyrirtækjanna er betri en hún var. Þetta er staðreynd og ég tel þetta gott fyrir íslenska þjóð.

Hvað varðar þá hugsun að skilja auðinn eða verðmætin eftir í sjávarbyggðunum er rétt að hafa í huga að langstærstur hluti þjóðarinnar býr við sjávarsíðuna. Það er svolítið umhendis og undarleg hugsun að ætla sér að taka fjármunina úr hinum dreifðu byggðum suður til Reykjavíkur í þeirri von að það kerfi haldi sem hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, ætlaði sér að leggja upp með, þ.e. að það fjármagn mundi síðan leita til baka. Ég verð að segja eins og er að reynsla mín af íslenskum stjórnmálum, mörg góð, er frekar sú að þegar peningarnir eru komnir inn í ríkissjóð er tilhneiging til að þeim sé eytt á því svæði sem þinghúsið stendur (Forseti hringir.) á.