140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að baki þeim frumvörpum sem við höfum verið að ræða hér, þessu gjaldtökufrumvarpi og eins því sem bíður og snýr að stjórn fiskveiðanna, liggur sú hugsun að um sé að ræða einhvers konar þjóðareign. Gjaldtakan hefur verið byggð á þeirri hugsun. Það kann að vera svolítið erfitt að komast að þeirri niðurstöðu, jafnvel þótt ágæt sé eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur komist að, að það sé nauðsynlegt að arðurinn verði skilinn eftir eða gjaldið fært til sjávarbyggðanna. Það getur vel verið að menn spyrji á grundvelli þess að um sé að ræða einhvers konar þjóðareign, sameign þjóðarinnar, þeir sem búa fjarri sjávarsíðunni, t.d. íbúar Hveragerðis eða þeir sem búa á Selfossi: Eigum við ekki einhvers konar hlutdeild í þessum arði? Er það eðlilegt að aðrir íbúar, þeir sem ekki starfa í sjávarútvegi en búa þó við sjávarsíðuna, fái í sinn hlut þetta gjald en ekki við hin sem búum ekki við sjávarsíðuna og tökum ekki þátt í sjávarútvegi?

Menn geta ekki bæði sleppt og haldið, það er ekki bæði hægt að halda því fram að hér sé um að ræða þjóðareign og byggt gjaldtökuna á þeirri hugsun og um leið beint gjaldinu í einhverjar ákveðnar áttir. Annaðhvort verða menn að hafa þjóðareign, sem ég reyndar lít á sem ríkiseign, og þá verður gjaldið að dreifast jafnt, eða menn leggja þetta á sem almennan skatt, þá á þeim grundvelli að ekki sé um að ræða þjóðareign og beina þannig skattinum eftir þeim leiðum sem við höfum á þinginu í ákveðnar áttir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu, virðulegi forseti.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé röng hugsun að ætla sér að efla landsbyggðina með því að leggja á auðlindaskatt. Ég vísa, eins og sumir aðrir hv. þingmenn hafa gert, til þeirra skoðana sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon setti fram fyrir nokkru þar sem hann fór yfir þau meginatriði sem hann fann gegn því að sett yrði á auðlindagjald. Það var sett fram í einum tíu umræðupunktum, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég er sammála hverjum einasta þeirra. Þeir voru allir mjög skynsamlegir. Ég veit ekki hvað hefur komið fyrir hæstv. ráðherra. (JBjarn: Það er nú góð spurning.)