140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjöld sem er annað frumvarpið sem snertir framtíðarskipan stjórnar fiskveiða hér á landi. Í raun er það bagalegt að við ræðum það mál nú sem tengist beint öðru máli, þ.e. um það með hvaða hætti við viljum haga þessum málum til framtíðar litið, því það helst í hendur hvað við teljum að íslenskur sjávarútvegur geti greitt í veiðigjöld. Það fer náttúrlega allt eftir því hvernig starfsumhverfið verður og er óljóst og í þoku og það frumvarp fast í atvinnuveganefnd þingsins. Þess vegna er dapurlegt að þurfa að standa í svo þokukenndri umræðu í stað þess að bíða með að ræða þetta mál þar til það mál hefur verið leitt til lykta. Við gætum þá nýtt tímann á Alþingi til að ræða um hvernig við getum komið frekar til móts við skuldug heimili, hvernig við getum aukið atvinnu í landinu og komið til móts við atvinnulífið og um önnur mál gætum við eytt tímanum hér á Alþingi í að ræða frekar en að standa hér í þokukenndri umræðu í ljósi þess að alls óljóst er hvernig fer með meginstefnuna í fiskveiðistjórnarmálum til lengri tíma litið.

Þessi mál komu mjög seint inn í þingið eftir að ríkisstjórnin hafði verið að vandræðast með sjávarútvegsmálin í lengri tíma. Þegar málin voru kynnt var nefnt sérstaklega að víðtækt samráð hefði verið haft við fjöldann allan af aðilum við samningu frumvarpsins.

Þess vegna kemur á óvart þegar ég les nefndarálit fulltrúa Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd, hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, það sem fram kemur á bls. 7 í áliti hans, með leyfi frú forseta, undir fyrirsögninni Samráð:

„Í svörum umsagnaraðila við fyrirspurnum 2. minni hluta kom fram að ekkert samráð var haft — ekki neitt við neinn. Ekki við Hagstofuna, þrátt fyrir að aðferðafræðin ætti uppruna sinn þar. Ekki við hagsmunaaðila greinarinnar, þrátt fyrir að meiri hlutinn haldi fram að byggt sé á niðurstöðu samráðs- og sáttanefndar sjávarútvegsráðherra frá hausti 2010. Ekki við sveitarfélögin, þrátt fyrir að samkvæmt frumvarpinu sé tekin tíu sinnum hærri upphæð út úr sjávarútvegssamfélögunum en áður var. Ekki við samtök á vinnumarkaði, þrátt fyrir stöðugleikasáttmála og samninga við þau við gerð kjarasamninga. Allir aðilar gagnrýna harðlega samráðsleysið og undir það tekur 2. minni hluti. Rétt er í þessu samhengi að benda á stefnu Framsóknarflokksins sem eins og áður sagði kom fram í þingsályktunartillögu. Að henni stóðu allir þingmenn Framsóknarflokks.“ Og í framhaldi af þeim orðum er sú tillaga rakin.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að eðlilegt sé að víðtækt samráð sé viðhaft þegar kemur að grundvallarstefnubreytingu er snertir íslenskan sjávarútveg. Yfirgangur framkvæmdarvaldsins er með hreinum ólíkindum, að ætla Alþingi Íslendinga einungis nokkra daga til þess að ganga frá slíku grundvallarmáli, jafnvel að neita fulltrúum minni hlutans í nefndinni að kalla fyrir gesti til að fá svör við mikilvægum spurningum. Mér er það til efs að önnur ríkisstjórn hafi komið fram af jafnmiklum hroka og yfirgangi gagnvart Alþingi Íslendinga og sú ríkisstjórn er nú situr.

Það eru nefnilega engin smámál sem við ræðum hér. Þau snerta 35 þús. einstaklinga sem hafa atvinnu og lifibrauð sitt beint af íslenskum sjávarútvegi eða fyrirtækjum sem þjónusta þá mikilvægu undirstöðuatvinnugrein okkar. Hv. þingmenn hafa ýjað að því — ekkert ýjað að því heldur hafa þeir sagt það hreint út að við þingmenn Framsóknarflokksins séum að ganga einhverra sérhagsmuna í málinu, að einhverjar annarlegar hvatir séu hjá okkur þegar við viljum ræða þessi mál ítarlega sem snerta, eins og ég sagði áðan, 35 þús. landsmenn. Eru það einhverjir sérhagsmunir að við framsóknarmenn skulum tala máli sjómanna, fiskvinnslufólks, fólks sem starfar við löndun, rafvirkja sem þjónusta sjávarútveginn hringinn í kringum landið? Bókhaldsskrifstofur, vöruflutningabílstjórarnir sem ferja sjávarfang daglega á þjóðvegum landsins, eru það sérhagsmunirnir sem við erum að tala fyrir þegar við viljum fara varlega í að kollvarpa því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við?

Við erum nefnilega ekki bara að tala um einhver risastór sjávarútvegsfyrirtæki. Við erum að tala um lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi sem hafa margvíslega hagsmuni af því að íslenskur sjávarútvegur standi styrkum fótum. En áróðursmeistarar ríkisstjórnarinnar setja málið upp með þeim hætti að við séum einungis að verja hagsmuni örfárra auðmanna en að sjálfsögðu er það ekki svo. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein byggðarlaga vítt og breitt um landið og þau samfélög hafa lagt til ríkissjóðs gríðarlega mikla fjármuni í formi þeirrar starfsemi sem þar er.

Það frumvarp sem kom fram gerði ráð fyrir veiðigjaldi upp á sirka 22 milljarða kr. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að skattlagningin gat í sumum tilvikum verið 140%, sem á íslensku þýðir að þá borgi sig einfaldlega ekki að standa í neinni atvinnustarfsemi. Þegar vinstri menn koma fram með þá hugmyndafræði að auknir skattar, og stórauknir skattar í þessu tilviki, auki tekjur er það hreinasta öfugmæli. Þegar 100% skattur er innheimtur af tekjum manns borgar sig ekki fyrir mann að vinna og það borgar sig ekki fyrir fyrirtæki að skila arði og vera í starfsemi.

Fram hefur komið í könnun sem Vífill Karlsson birti fyrir nokkrum árum að 75% af opinberu fé, þ.e. skattpeningum almennings, er varið til Reykjavíkursvæðisins, en það svæði aflar einungis 42% af tekjum ríkisins. Þarna er mikill halli í ljósi þess að mikið innstreymi er til Reykjavíkur af landsbyggðinni, meðal annars vegna þeirrar grundvallarstarfsemi sem sjávarútvegurinn er. Þau hlutföll eiga eftir að skekkjast enn meira verði þetta frumvarp að lögum. Það er einfaldlega óásættanlegt að hlusta á hv. þingmenn tala um að við séum að ræða um eitthvert sérstakt réttlæti. Eða er það eitthvert réttlæti að halda áfram að auka skattálögur á landsbyggðina þegar slík skekkja er fyrir hendi?

Við höfum horft á þessa norrænu velferðarstjórn á undanförnum mánuðum tilkynna niðurskurðaráform á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni, sérstaklega þegar kemur að grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustunni. Þar hefur verið skorið niður og var lagt af stað, eins og í tilfelli Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, með 40% niðurskurð, takk fyrir. Síðan kom hæstv. þáverandi fjármálaráðherra í hlutverki góða mannsins og sagði: Ja, við munum helminga þennan niðurskurð. Og þá er ríkisstjórnin farin allt í einu að leika einhvern góðan aðila, en að sjálfsögðu var niðurskurðurinn of mikill, og hefur verið, gagnvart grundvallarþjónustu í mörgum byggðarlögum á landsbyggðinni. Og enn skal haldið áfram, það skal leggja á aukinn landsbyggðarskatt.

Það er hárrétt sem kom fram hér áðan hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að tenging þessa frumvarps við byggðirnar, sjávarbyggðirnar og styrkingu byggðanna, þ.e. að sú hugsun að stór hluti af veiðigjaldinu eigi að renna til hinna dreifðu byggða hefur gufað upp undir forustu hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Það er því allt önnur nálgun á frumvarpi þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar — sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði reyndar bílslys — og því sem við ræðum nú. Hér er nálgunin sú að skattleggja sjávarbyggðirnar sérstaklega og ég mun fara yfir umsagnir nokkurra sveitarfélaga á eftir.

Ég sé að mér er skammtaður lítill tími hér. Í ljósi þess að ég þarf að koma mörgum málum á framfæri væri kannski ágætt að vita hvað ég á mikinn tíma eftir.

(Forseti (ÞBack): Það standa eftir átta mínútur og 52 sekúndur eins og stendur á klukkunni núna. Það er einhver villa í klukkunni, við þurfum að skoða þetta betur og ég bið hv. þingmann um að halda bara ró sinni og halda áfram ræðu sinni. Við munum laga klukkuna og tímasetninguna.)

Frú forseti. Það er alls enginn æsingur hér í ræðustól. Það er af sem áður var þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð var í stjórnarandstöðu og hv. þáverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson, hrópaði og kallaði þannig að það heyrðist fram í sali mötuneytis þingsins, það er enginn svoleiðis æsingur. Reyndar væru alveg efni til þess að brýna raustina, þó að það væri ekki nema til þess eins að fá einhverja stjórnarliða hingað í salinn til að skiptast á skoðunum um grundvallarmál sem snertir atvinnu 35 þús. Íslendinga.

Þegar við tölum um íslenskan sjávarútveg og setjum það í víðara samhengi er það nú svo að íslenskur sjávarútvegur er ekkert vandræðabarn, hann er ekkert vandræðabarn þegar kemur að aðkomu ríkisins í þeirri atvinnustarfsemi. Hér á landi skilar atvinnugreinin milljörðum inn í ríkissjóð, sem betur fer, meðan aðrar þjóðir í Evrópu reka ríkisstyrktan og óhagkvæman sjávarútveg, þannig að í staðinn fyrir að fá tekjur af atvinnugreininni hafa ríki í Evrópusambandinu verið að greiða með henni. Maður veltir fyrir sér: Til hvers í ósköpunum ætla menn að kollvarpa slíku kerfi — sem vissulega hefur á sér einhverja galla og við skulum sníða þá af — en þrátt fyrir suma galla kerfisins, ekkert kerfi er svo sem fullkomið, er algjör óþarfi að snúa því algjörlega við.

Ég nefndi landsbyggðarskatt og hvernig ríkisstjórnin hefur vegið markvisst, að mér sýnist á stundum, gegn byggðastefnu í landinu. Ég nefndi áðan hversu harkalega hefur verið skorið niður í velferðarþjónustunni á landsbyggðinni, við erum að bæta hér við öðrum landsbyggðarskatti og við horfum á hátt raforkuverð. Við horfum líka til þess að heill stjórnmálaflokkur, sem heitir Samfylkingin, fór fram undir kjörorðinu „störf án staðsetningar“, sem vakti mikla gleði vítt og breitt um landið. Og ég efast ekki um að þeir voru ófáir sem ákváðu að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt til þess að efla opinber störf á landsbyggðinni því að störf án staðsetningar áttu að miða að því að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, en það snerist upp í andhverfu sína eins og svo margt hjá þessari blessaðri ríkisstjórn. Fyrsta starfið sem var auglýst án staðsetningar var starf forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs, sem maður hefði nú haldið að eðli málsins samkvæmt ætti að vera staðsett á Egilsstöðum, Höfn eða norður í Þingeyjarsýslum, en ákveðið var undir forustu samfylkingarráðherra að auglýsa það starf án staðsetningar og niðurstaðan varð sú að framkvæmdastjórinn stýrir þjóðgarðinum fyrir austan úr 101 Reykjavík. Þetta er nú nálgun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að byggðamálum og enn skal haldið áfram, það er öllu snúið á hvolf, frú forseti.

Ég rakst á grein í Útveginum þar sem haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, sem þá var þingmaður Alþýðubandalagsins, að hann hafni hugmynd um veiðigjald alfarið og gerði sig breiðan á stjórnmálafundi á Akureyri í þeim málflutningi. Þetta var 1997 og mig langar að vitna til þeirra orða þáverandi hv. þingmanns Alþýðubandalagsins, Steingríms J. Sigfússonar, með leyfi frú forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Þáverandi hv. þingmaður heldur áfram, með leyfi forseta:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur.“

Áfram heldur hv. þingmaður:

„Í hvað hefur hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað farið undanfarin ár? Hann hefur í meginatriðum farið í endurnýjun loðnubræðslunnar, í að kaupa Blæng, fór í að endurbyggja Beiti og fer í að endurbyggja Börk. Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.“

Frú forseti. Ég er að vitna hér til orða hæstv. ráðherra sem leggur fram frumvarp um tugmilljarða veiðigjald á hinar dreifðu byggðir. Er hægt að komast í meiri mótsögn við sjálfan sig í málflutningi? Það er reyndar þannig með Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að mörgum stefnumálum þeirra hefur nú verið snúið á hvolf og hefur hv. þm. Jón Bjarnason gert grein fyrir því í andsvari hér fyrr í kvöld að þetta frumvarp sé ekki í takti við það frumvarp sem hann vann í sinni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er því ágreiningur innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að stefnu í sjávarútvegsmálum, það er augljóst.

Reyndar er það fáheyrt að einungis örfáum dögum eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var látinn taka poka sinn kom hæstv. forsætisráðherra hingað upp í stól Alþingis og — eins og unga fólkið segir í dag — hraunaði bókstaflega yfir hv. þingmann og sagði að það væri allt honum að kenna sá seinagangur sem hafði átt sér stað í meðferð sjávarútvegsmála hér í þinginu. Ég held að sjaldan hafi forsætisráðherra farið jafnhörðum orðum í garð stuðningsmanns eigin ríkisstjórnar og hæstv. forsætisráðherra gerði þá. Og þó býr ríkisstjórnin við mjög nauman meiri hluta eins og við þekkjum vel.

Maður veltir líka fyrir sér trúverðugleika ríkisstjórnarinnar þegar kemur að kosningavíxlum. Eins og við þekkjum kynnti ríkisstjórnin einn slíkan á blaðamannafundinum sem haldinn var um sérstaka fjárfestingaráætlun sem fólst í því að fjármagna nokkur verkefni með því að ofurskattleggja undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar. Sem mun samkvæmt umsögnum því miður hafa áhrif á laun starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækjanna, á fjárfestingu þeirra fyrirtækja í innviðum samfélagsins og mun þá líka minnka virði fyrirtækjanna. Hvað þýðir það? Virði þeirra fyrirtækja mun minnka, sem eru mörg hver mjög skuldsett og stærsti lánveitandi íslensks sjávarútvegs er íslenski þjóðarbankinn, Landsbankinn, en hinn hlutann af fjárfestingaráætluninni átti að fjármagna með sölu á bankanum og hlutum í öðrum fjármálastofnunum.

Hvaða rekstrarvit er á bak við þá hugmyndafræði að koma fram með mál sem veikir tilvistargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækjanna, og mundi setja mörg hver í þrot? Þar af leiðandi mundi það veikja eignasafn Landsbankans og minnka virði Landsbankans við sölu. Hver mundi vilja kaupa Landsbankann ef það vofði yfir að fyrirtæki væru unnvörpum að verða gjaldþrota vegna hinnar nýju stefnu ríkisstjórnarinnar? Það er alveg ljóst að sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin lagði fram, og tengist beinlínis því frumvarpi sem við erum að ræða, gengur einfaldlega ekki upp. Enda sýndist mér af áhuga almennings og opinberri umræðu um þetta kosningaplagg Samfylkingar og Vinstri grænna, og kannski einhverra fleiri framboða, að því hafi verið tekið mátulega alvarlega.

En hugmyndafræðin finnst mér slæm. Þá á ég við að málflutningur ríkisstjórnarinnar er sá að með þessari áætlun eigi að fjárfesta ákveðin verkefni tengd meðal annars samgöngubótum. Þá er orðræðan orðin þannig við fólk á Norðfirði, annars staðar í Fjarðabyggð, fyrir vestan og á fleiri stöðum: Ja, ef þið samþykkið ekki frumvarpið um veiðigjöld verður mögulega seinkun á bráðnauðsynlegum samgönguframkvæmdum í viðkomandi sveitarfélagi. Það eru náttúrlega vinnubrögð og málflutningur sem á ekki að líðast, að fólk þurfi að velja á milli. Að sjálfsögðu eiga þessi mál ekki að tengjast á nokkurn einasta hátt.

Frú forseti. Ég er búinn að eiga ansi lengi 28 mínútur eftir af ræðutíma mínum og ég á mjög erfitt með að vita hvað tímanum líður. Við erum að ræða um mjög umfangsmikið mál og væri ágætt að vita hversu langan tíma ég á eftir.

(Forseti (ÞBack): Forseti er að láta skoða hvað margar mínútur eru eftir og klukkunni verður komið í lag. Forseti mun gefa hv. þingmanni viðvörun eftir svo sem fimm mínútur en vonandi kemst klukkan í lag. Hv. þingmaður hóf ræðu sína kl. 22.43, það er því rétt rúmur hálftími liðinn þannig að tíu mínútur ættu þá að vera eftir.)

Ég þakka fyrir það. Það er leitt ef þessir tæknilegu örðugleikar dragast inn í nóttina því að mér skilst að við ætlum að ræða málin eitthvað fram eftir sem eðlilegt er, enda erum við að ræða um mjög mikilvæg mál.

Það er undarlegt þegar við ræðum þetta mál og alla þá fleti sem á því eru sem snerta svo marga landsmenn, hag sveitarfélaga, ríkissjóðs og heimila, þá skuli enginn nefndarmaður úr meiri hluta atvinnuveganefndar sitja hér í salnum undir umræðunni og til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég ætla ekki að halda því fram að það fólk sé vísvitandi að leggja íslenskan sjávarútveg í rúst. Viljinn hlýtur að vera góður. Þess vegna hlýtur að vera nauðsynlegt að við förum í ákveðna rökræðu um kosti og galla þess frumvarps sem við ræðum. En ef það er svo að stjórnarliðar ætla gjörsamlega að hunsa það að koma í efnislega umræðu eða í andsvör til að ræða um kosti og galla frumvarpsins sýnir það náttúrlega fyrir fram að málstaðurinn er ekki sterkur.

Eftir að ég fór yfir umsagnalistann með frumvarpinu er eðlilegt að við auglýsum eftir stuðningsmönnum frumvarpsins vegna þess að nær allar umsagnir um frumvörp um sjávarútveginn sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eru neikvæðar, nær allar. Það er þess vegna merkilegur þverskurður af þjóðinni að hér skuli meiri hluti alþingismanna ætla að samþykkja frumvarp sem hefur fengið slíka útreið hjá umsagnaraðilum. Þar erum við að tala um aðila úr verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins, frá nær öllum samtökum sjómanna og þeirra sem starfa við íslenskan sjávarútveg, að við tölum ekki um sveitarfélögin vítt og breitt um landið, sem hafa sent inn harðorðar umsagnir um frumvarpið.

Fram kom hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að við gerð frumvarpsins hafði ríkisstjórnin ekkert samráð við hlutaðeigandi aðila þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að mjög yfirgripsmikið samráð hafi átt sér stað. Því er alveg ljóst að hér er pottur brotinn þegar kemur að vinnubrögðum á Alþingi og ekki bjóðandi okkur þingmönnum að starfa undir slíkum vinnubrögðum sem meiri hlutinn hefur ákveðið að beita í málinu.

Ég ætla að renna örstutt í gegnum nokkrar umsagnir. Fyrst kemur umsögn frá Byggðastofnun og segir í niðurlagi hennar, með leyfi frú forseta:

„Færa má fyrir því rök að veiðigjöld séu landsbyggðarskattur, enda stór hluti aflaheimilda bundinn fyrirtækjum þar.“

Hér er umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda — sem vel að merkja eru ekki þessir ímynduðu óvinir sem ríkisstjórnin er sífellt að reyna að úthrópa í tengslum við þetta mál, að það snerti einungis örfáar fjölskyldur landinu, stórauðugar — og vitna ég nú í umsögnina, með leyfi frú forseta:

„Það var smábátaeigendum fagnaðarefni að sjá þau fyrirheit sem gefin voru í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum 1. febrúar 2009. Þau fyrirheit gáfu til kynna að smábátaútgerðin yrði efld að vöxtum og kostir hennar nýttir í þágu þjóðar í þrengingum.

Það frumvarp sem nú hefur litið dagsins ljós gengur gróflega gegn þessum fyrirheitum og hefur þau í flestu að engu.

Niðurstöður þess starfs sem Landssamband smábátaeigenda (LS) tók þátt í og trúði lengi vel að mundi móta tilraun stjórnvalda til að nálgast sátt um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar hefur hlotið sambærileg örlög.“

Áfram er haldið, með leyfi frú forseta, í þeirri umsögn:

„Ekki verður betur séð en að þær forsendur sem gefnar eru í útskýringum með frumvarpinu bendi til þess að margir smábátaeigendur sitji á fúlgum fjár eftir góðærið 2010. Það væri sannarlega óskandi, en er að sjálfsögðu ekki raunin. […]

LS skorar á stjórnvöld að setja frumvarpið í biðstöðu nú þegar og gera þeim kleift sem í greininni starfa að koma að málinu með eðlilegum og sanngjörnum hætti.

Smábátaeigendur hafa ætíð lýst sig reiðubúna að leggja sitt af mörkum til að meiri friður geti ríkt um þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Það boð stendur enn.“

Í umsögn sem Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sendi inn um málið koma fram slíkar athugasemdir að ég hefði haldið að það væri sjálfhætt að reyna að berja í gegn þau frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Athugasemdirnar eru svo víðtækar að ég hefði haldið að vinna þyrfti málið upp á nýtt. Reyndar höfum við framsóknarmenn ítrekað lagt það fram að skipuð yrði sérstök sáttanefnd til að móta stefnu til framtíðar litið en sú vinstri stjórn sem hér ríkir hefur ekki viljað hleypa atvinnulífinu, hagsmunaaðilum, hvað þá stjórnarandstöðunni að því borði.

Hér bendir Ragnar Árnason á eftirfarandi, með leyfi frú forseta:

„Erfitt er að finna nokkra skattlagningu á fyrirtæki á Vesturlöndum, hvort sem þau eru í auðlindavinnslu eða ekki, sem búa við skattheimtu sem er í námunda við þetta hlutfall af hagnaði.“ — Sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Nú er best að gæta sanngirni í því að auðlindagjaldið hefur verið lækkað úr einum 22 milljörðum niður í 15 en er samt enn of hátt og að mínu viti þarf meira af þessu gjaldi að renna til sjávarbyggðanna þannig að við getum byggt upp atvinnustarfsemi, fjölbreytta atvinnustarfsemi, og jafnvel veitt fjármuni til að jafna búsetuskilyrðin í landinu. Eins og hefur verið bent á í þessari umræðu borga 10% heimila hér á landi, sem öll eru á landsbyggðinni, helmingi eða tvisvar sinnum hærra verð til að kynda húsin sín en fólk á öðrum svæðum á landinu. Það eru aðallega sjávarbyggðir og væri hægt að reyna að nota eitthvað af þeim fjármunum til að jafna þennan aðstöðumun sem heimilin búa við.

Ragnar Árnason dregur það saman í lokin hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á íslenskt samfélag verði það að veruleika. Það eru tíu atriði, með leyfi frú forseta:

„Fyrirhugað veiðigjald mun:

1. Stórlega veikja íslenskan sjávarútveg og samkeppnishæfni hans á alþjóðlegum mörkuðum.

2. Draga verulega úr vexti framleiðni og hagkvæmni í sjávarútvegi.

3. Minnka vöxt þjóðarframleiðslunnar.

4. Minnka opinberar skatttekjur er fram í sækir.

5. Minnka fjármagnsstofn þjóðarinnar samstundis og þar með lánstraust hennar.

6. Gera fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi tæknilega gjaldþrota.

7. Valda verulegri byggðaröskun.

8. Sjúga fé frá landsbyggðinni og valda þannig hnignun hennar.

9. Valda verulegum áföllum í fjármálakerfi landsmanna.

10. Rýra lánskjör þjóðarinnar erlendis og þar með möguleikana á erlendri fjármögnun.“

Ég hefði haldið að efni væru til þess eftir svo umfangsmiklar athugasemdir að við mundum þvert á flokka setjast yfir málið og fara að virkja þau samræðustjórnmál sem boðuð voru í aðdraganda síðustu kosninga, ræða við hagsmunaaðila, svo sem fulltrúa sjómanna, fiskvinnslufólks, fjármálafyrirtækja og fleiri mætti nefna.

Nei, þvert á móti er haldið áfram, vaðið áfram þvert á alla eðlilega rökhyggju sem mér finnst að eigi að endurspeglast í störfum Alþingis, sérstaklega ef við viljum læra eitthvað af því hruni og þeim vinnubrögðum sem einkenndu stjórnmálin og stjórnsýsluna í aðdraganda þess.

Nú væri ágætt að vita frá hæstv. forseta hversu langan tíma ég á eftir því að ólag er á klukkunni. Það er mjög hvimleitt að …

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn á eftir um sex mínútur samkvæmt mælingu hér í borði. Forseti tekur undir að það er ákaflega hvimleitt þegar klukkan lætur ekki að stjórn en hún tekur stundum upp á því að stjórna sér sjálf. Þarna eru komnar sex mínútur og vonandi mun þetta nú ganga.)

Fyrir utan það að rauði liturinn blikkar hér í sífellu og minnir mig á ákveðinn stjórnmálaflokk, en ég er hrifnari af græna litnum, við skulum því vona að hann haldist það sem eftir lifir þessarar ræðu.

Mig langar að nefna umsögn frá sambandi sem er fulltrúi fyrir 50 þús. félagsmenn, þ.e. Starfsgreinasamband Íslands, sem hefur verulegar athugasemdir við frumvarpið.

Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Það er ámælisvert að stjórnvöld hafi ekki framkvæmt ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin munu hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni. SGS hefði talið eðlilegt að slík rannsókn hefði farið fram áður en svo viðamiklar breytingar á stjórn fiskveiða væru gerðar. SGS vill að slík rannsókn fari fram án tafar.

Mikilvægt er við innleiðingu á breyttu fiskveiðistjórnarkerfi og veiðigjaldi að menn fari varlega af stað í upphafi til að kollvarpa ekki greininni. Það er nauðsynlegt að innleiða breytingarnar með varfærnum hætti svo hægt verði að fylgjast betur með og meta áhrif breytinganna á byggðir landsins, launafólk og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja áður en framhaldið verður ákveðið. Taka verður sérstakt tillit til sjávarbyggða sem byggja allt sitt á veiðum og vinnslu þegar áhrif breytinganna verða metin.“

Að lokum segir í umsögn Starfsgreinasambands Íslands, með leyfi frú forseta:

„SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.“

Það virðist vera alveg sama hvar drepið er niður í umsögnum um þetta frumvarp að nær allir umsagnaraðilar eru á móti því.

Hér er ég með umsögn frá sveitarfélaginu Hornafirði. Það fékk KPMG, endurskoðunarfyrirtæki, til að fara yfir áhrif á sveitarfélagið. Samkvæmt upphaflega frumvarpinu hefðu veiðigjöld numið samtals 1.300 millj. kr. fyrir sveitarfélagið Hornafjörð. Ef við setjum þá skattlagningu í samhengi við önnur stór samfélög á landinu hefði það samsvarað því að veiðigjöld í Reykjavík hefðu verið 92,6 milljarðar kr., sem samfélagið Reykjavík hefði greitt inn í ríkissjóð, Kópavogur hefði greitt 24,3 milljarða, Hafnarfjörður 20,6 milljarða og halda mætti áfram.

Halda menn virkilega að sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hefðu látið slíkt yfir sig ganga? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þessi umsögn frá Hornafirði sýnir það berlega að við erum í grunninn að ræða um tilfærslu á fjármunum frá sjávarbyggðunum og til höfuðborgarsvæðisins. Það er verið að auka enn frekar á þann halla sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur nefnt oft að undanförnu þegar orðið „réttlæti“ kemur upp í hugann. Er eitthvert réttlæti að auka enn frekar á hallann þegar kemur að opinberum framlögum annars vegar til landsbyggðarinnar og hins vegar til höfuðborgarsvæðisins? Það er einfaldlega ekkert réttlæti sem kemur upp í hugann þegar maður les þetta.

Það er því saknaðarefni, frú forseti, að fulltrúar réttlætisins, þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar, skuli ekki mæta til þessarar umræðu, skuli ekki einu sinni biðja um eitt andsvar við þeirri ræðu sem ég hef haldið. Hér hefur fjölmörgum umræðupunktum verið haldið fram en það er greinilegt að fylgja á gamla laginu, rétt eins og í Icesave-málinu og öllu því: Við skulum bara fara eftir því sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segja og fylgja þeim í blindni. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru ekki að rækja hlutverk sitt á Alþingi með slíkri hjarðhegðun. Það er óeðlilegt að fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar, sem margir hverjir sækja umboð sitt til þeirra sveitarfélaga sem hafa verið að senda inn umsagnir og hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum áætlunum, skuli ekki koma hingað upp og gera grein fyrir afstöðu sinni. Það er einfaldlega verið að sækja heilmikla fjármuni án þess að mikið skili sér til baka til þessara samfélaga.

Ég er með umsögn frá Vopnafjarðarhreppi þar sem varað er mjög við að halda áfram með málið nema vel sé farið yfir allar forsendur og afleiðingar af þessum frumvörpum. Að sjálfsögðu gerum við það ekki á þremur eða fjórum dögum hér í þinginu, að sjálfsögðu ekki.

Fram kemur í erindi frá Fjarðabyggð að miðað við upphaflegt frumvarp hefði veiðigjald á fyrirtækin í Fjarðabyggð verið 3,4 milljarðar kr. sem samsvarar 745 þús. kr. á hvern einasta íbúa í Fjarðabyggð. Fulltrúar í atvinnuveganefnd, sem hafa verið kosnir af fólki í Fjarðabyggð, skulda því fólki rökstuðning fyrir því hvers vegna svona langt er gengið og hvers vegna verið er að tefla í tvísýnu framtíðarfyrirkomulagi fiskveiðistjórnar hér á landi og starfsumhverfi sjávarútvegsins.

Einnig hefur komið fram að ætli menn að halda áfram ofurskattlagningu á þessa einu atvinnugrein mun það óhjákvæmilega leiða til þess að starfskjör sjómanna, fiskvinnslufólks og annarra starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækjanna munu minnka. Það er kannski í takti við lífskjarastefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki er hægt að segja að lífskjörin hafi beint verið að batna á undanförnum árum þó svo að ríkisstjórnin vilji horfa á lífskjör almennings með allt öðrum gleraugum en þorri íslensks almennings. En það er einfaldlega staðreynd málsins. Ég held að við þurfum líka að velta því fyrir okkur í þessu samhengi að meðhöndla þarf sjávarútveginn og þá auðlind með sama hætti og til dæmis orkuauðlindirnar, olíuauðlindirnar og fleira mætti nefna í þeim efnum. (Forseti hringir.) Við erum einfaldlega ekki komin nægilega langt í því.

Frú forseti. Hér stendur að ég eigi eina mínútu eftir af tíma mínum.

(Forseti (ÁRJ): Þessi klukka virkar ekki alveg sem skyldi, þannig að nú er mínútan liðin og ræðutími hv. þingmanns á enda og komið að því að þingmenn nokkrir sem óskað hafa eftir geti komið hingað og veitt andsvör við þessari ræðu.)

Já, það er spurning með fundarstjórn frú forseta, hvort við frestum ekki þingfundi þangað til klukkan er komin í lag vegna þess að það er mjög bagalegt að flytja ræðu við þessar aðstæður.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að koma klukkunni í lag.)