140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú held ég að hv. þingmaður þyrfti að grufla nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2003, vegna þess að við höfum rætt um þetta gjald á sjávarútveginn allar götur síðan þá og ég hef í hverri einustu ræðu um það lagt mikla áherslu á að einhver hluti af veiðigjaldinu fari til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar í sjávarbyggðunum. Reyndar er það svo, ég kannast við það, að ágreiningur hefur verið á milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna þegar kemur að því.

Staðreyndin er sú að á meðan við höfum frjálst framsal eins og það er, sem hefur aukið mjög hagkvæmnina í greininni, getum við einfaldlega horft upp á að á einni svipstundu hverfi gríðarlega stór hluti af veiðiheimildum úr ákveðnum byggðarlögum. Þá höfum við framsóknarmenn sagt að nauðsynlegt sé að hafa einhverja varnagla til þess að bregðast við slíku vegna þess að það er óneitanlega galli á núverandi kerfi.

Svo getur okkur greint á um hversu stórir slíkir pottar eigi að vera. Mér finnst ríkisstjórnin fara dálítið bratt fram í þeim efnum en þá er kannski rétt að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, af því að við erum hér í andsvörum, hvort hann og Sjálfstæðisflokkurinn sé algjörlega á móti því að við getum gripið til einhverra slíkra samfélagslegra úrræða þegar frjálsa framsalið hefur í för með sér að stór hluti af fiskveiðiheimildum færist úr einu byggðarlagi á mjög stuttum tíma. Verðum við ekki að hafa — án þess að pólitíkusar sem slíkir eigi að vera að útdeila þeim heimildum með beinum hætti — einhverja öryggisventla í fiskveiðistjórnarkerfinu til að bregðast við slíku? Annars held ég að erfitt verði að ná víðtækri sátt um kerfið.