140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með skýrslu sem var unnin af sérfræðingum fyrir hæstv. fjármálaráðherra um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána. Í skýrslunni er enn einu sinni lögð áhersla á að draga fram kostnaðinn fyrir skattgreiðendur og lífeyrisþega. Engar efasemdir koma fram í skýrslunni um hvort skuldsett heimili geti tekið að sér að fjármagna skuldbindingar lífeyrissjóðanna. Engin tilraun er gerð til að meta afleiðingar þess að taka ekki á skuldavandanum sem að mínu mati, frú forseti, er tifandi tímasprengja. Mörg heimili eru á leið í þrot vegna viðvarandi verðbólgu og vegna væntanlegs verðhruns á fasteignamarkaði, sérstaklega ef þeir sem ekki geta selt í dag fasteignir sínar í úthverfum Reykjavíkur neyðast til að skila þeim vegna þess að þeir eru orðnir of skuldsettir.

Skýrsluhöfundar fjalla ekki um þær leiðir sem við sem höfum talað fyrir almennri leiðréttingu höfum lagt til, til að fjármagna leiðréttinguna. Það eru að minnsta kosti tvær leiðir færar. Það er að Seðlabankinn gefi út skuldabréf sem greitt yrði niður með skatti á hagnað bankanna eða að taka upp nýkrónu á mismunandi gengi.

Ríkisstjórnin hefur hafnað almennri leiðréttingu og innleitt sértæk úrræði. Í ljós hefur komið að þau gagnast fyrst og fremst þeim tekjuháu, eru tímafrek og dýr og að mínu mati, í raun algert fíaskó. Skuldavandinn verður ekki leystur nema fastir vextir komi í stað verðtryggingar, fasteignalán verði leiðrétt og sértæk skuldaúrræði geti tekið við öllum þeim sem þessar tvær aðgerðir hjálpa ekki.