140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Helst langar mig að svara hv. þm. Skúla Helgasyni en ég ætla ekki að eyða miklum tíma í svo ómálefnalegan og órökstuddan áróður eins og hann flytur. [Hlátur í þingsal.] Staðreyndin er sú að Samfylkingin og hv. þingmenn hennar hafa verið á flótta allt þetta kjörtímabil undan eigin málflutningi og eigin tillögum í þessum málum, þeir hafa verið reknir til baka með það til föðurhúsanna.

Mig langar að tala um annað, virðulegi forseti, það er ferðaþjónustan. Hún er vaxandi grein og það er ánægjulegt. Hún hefur verið árstíðabundin en við stefnum að því að efla hana enn frekar og vera með öfluga ferðaþjónustu allt árið. Við búum í stórbrotnu landi þar sem náttúran heillar, hálendið heillar. En þetta býður hættunni heim og við sjáum afleiðingar þess í mjög vaxandi útköllum hjá björgunarsveitum landsins.

Fyrir nokkrum árum fórum við björgunarsveitarmenn gjarnan í sumarfrí yfir sumarið, við sögðum: Sjáumst að hausti. Yfir sumarið voru aðeins örfá útköll. Nú er þetta orðinn einn mesti annatími ársins hjá björgunarsveitunum í landinu. Ég vil vekja máls á þessu vegna þess að það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að þetta mikilvæga sjálfboðaliðastarf kostar auðvitað heilmikinn rekstur og heilmikla fjármuni. Það er mikilvægt að ferðaþjónustan átti sig á því, þar sem ekki eru sóttir stórir rekstrarstyrkir í ríkissjóð, að hún verður að standa þétt við bakið á björgunarsveitunum, til að hægt sé að veita þjónustu og auka öryggi ferðamanna. Ég hef ekki nákvæma tölu um fjölda útkalla en þau skipta tugum bara á síðustu tveimur mánuðum, apríl og maí, og mjög mörg eru þau vegna ferðamanna.

Að nýloknum sjómannadegi vil ég einnig nefna í örstuttu máli það öfluga starf sem unnið er í öryggi sjómanna á hafinu. Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur 14 björgunarskip, stór björgunarskip hringinn í kringum landið og útkallafjöldi hefur vaxið mjög hjá þessum skipum, sérstaklega eftir að strandveiðar hófust. Það er ágætt að búa við þetta mikla öryggi en það kostar einnig mikið. Þessi skipafloti er í góðu standi en fram undan er þó þörf á miklu viðhaldsátaki (Forseti hringir.) sem mun kosta félagið mikið. Það er nauðsynlegt að Alþingi horfi til þess í haust við fjárlagagerð að standa þétt við bakið á samtökunum og komi að viðhaldsátaki vegna þessa skipaflota.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutími er tvær mínútur og biður menn að virða hann.)