140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi kvótakerfið sem hér var nefnt. Það er athyglisvert að heyra hvernig menn tala um það því að það sem við Íslendingar búum við í dag er hagkvæmur sjávarútvegur og auðlind sem er ekki ofveidd. Ef forsvarsmenn LÍÚ bjuggu það kerfi til hljótum við bara að þakka þeim fyrir það.

En aðgerðir útvegsmanna, bæði þeirra sem eru innan LÍÚ og ekki innan LÍÚ, af því að það taka flestir þátt í þessu, eru studdar af sjómönnum og landverkafólki. Það eru fleiri en útgerðarmenn sem hafa skilning á því hversu alvarleg staða er uppi í sjávarútveginum. Það er kannski helst forusta ASÍ sem skilur það ekki og það kemur reyndar ekki á óvart.

Heimilin eru kannski það sem mestu skiptir í dag og hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á það og ég tek undir þau orð hennar að skýrslan sem nefnd var veldur miklum vonbrigðum, að því leyti að sömu forsendur eru gefnar í upphafi og áður. Það er nánast samið við aðila sem skrifa þessa skýrslu og áður hafa skrifað skýrslur um þetta sama efni. Það er í sjálfu sér fátt nýtt í þessu nema að enn og aftur fáum við það staðfest að stjórnvöld gerðu gríðarleg mistök þegar bankarnir voru endurreistir með því að nýta ekki það tækifæri sem þá gafst til að lækka skuldir heimilanna. Það er mál sem stjórnvöld verða að fara að horfast í augu við. Ef það svigrúm, eins og það var kallað á þeim tíma, hefði verið nýtt, væri staðan svolítið önnur fyrir íslensk heimili í dag.

Ég held að flestir sjái að ekki er öll nótt úti enn. Það er hægt að fara í aðgerðir. Þær kosta að sjálfsögðu fjármuni en það þarf líka að svara því hvað það kostar að gera ekki neitt fyrir heimilin. Hvað kostar að láta heimilin vera áfram í þeirri stöðu sem þau eru í í dag? Það kostar marga milljarða. Þeir milljarðar fara þá ekki út í samfélagið til að efla hagvöxt og skapa atvinnu um leið annars staðar í hagkerfinu.