140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að fyrir nokkru afgreiddi allsherjar- og menntamálanefnd út til síðari umræðu tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, mál sem er flutt af átta þingmönnum úr þremur flokkum. Fyrstu flutningsmenn eru hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, Róbert Marshall og Birgir Ármannsson. Það hefur verið nokkur ágreiningur um það á síðustu missirum hvaða leið sé heppilegust í þessu efni. Hér er lagt til að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögreglan í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Telja flutningsmenn að það sé nauðsynlegt að veita lögreglunni sambærilegar heimildir og lögreglan annars staðar á Norðurlöndunum hefur, sérstaklega þegar um er að ræða glæpastarfsemi sem teygir einatt anga sína yfir landamæri. Það er mikilvægt að lögreglan í einstökum ríkjum hafi sambærilegar heimildir á milli landa.

Á móti kemur að mikilvægt er að gæta varfærni, eins og margir hafa bent á, og stíga varlega til jarðar. Sjálfur hef ég oft haft efasemdir um hversu langt eigi að ganga í þessa átt, hve langt slíkar heimildir eigi að ná og hvort hægt sé að beita þeim með óeðlilegum hætti. Það er mikilvægt að skilyrða þessar heimildir við tiltekna tegund rannsókna. Lögreglan hefur kallað mjög eftir slíkum heimildum eins og kemur fram í umsögnum og þess vegna held ég að í þessari tillögu sé lögð til mjög heppileg leið. Ég vona að málið drukkni ekki í málþófskófinu og öllu sem nú er uppi því þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem þarf að klára. Ég vona að þingið nái að afgreiða tillöguna og hún verði samþykkt og ráðherra verði falið að útbúa frumvarp með sambærilegum heimildum. Þegar ráðherra og ráðuneyti hafa unnið þá vinnu kemur frumvarpið að sjálfsögðu til þingsins og fer í gegnum hefðbundið þingferli, þrjár umræður og nefndarvinnu þannig að Alþingi getur unnið þetta mál mjög vandlega eftir að ráðherra kemur með það til þingsins. (Forseti hringir.) Ég vona að málið nái fram að ganga og lýsi ánægju minni yfir því að nefndin náði samstöðu um að afgreiða það. Ég tel að þetta sé besta leiðin til að leiða þetta ágreiningsmál (Forseti hringir.) til lykta þannig að lögreglan fái þær heimildir sem hún þarf.