140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ef útvegsmenn eru ekki að nýta þær heimildir um þessar mundir sem ríkið hefur gefið út þeim til handa til að sækja sjóinn og miðin í kringum landið er einsýnt að ríkisstjórnin á nú þegar að hefja undirbúning að því að innkalla þær heimildir og endurráðstafa þeim upp á nýtt svo að tryggt sé að þær verði nýttar. Þá tel ég jafnframt að ríkisstjórnin eigi að skoða hvort ekki sé ástæða til og fær leið að rýmka verulega þær strandveiðar sem nú eru stundaðar. Með þeim hætti væri jafnvel hægt að bjóða út veiðiheimildir, auka verðmætasköpun í strandveiðum og auka tekjur ríkisins til að standa straum af víðtæku björgunarstarfi sem hv. þm. Jón Gunnarsson mælti fyrir áðan. Það er rétt sem hv. þingmaður segir. Á mörgum stöðum er verið að vinna mjög glæsilega vinnu á þeim vettvangi og vantar fjármuni. Það er sjálfsagt mál að sækja það meðal annars með því að endurráðstafa veiðiheimildum og nýta þá peninginn. (Gripið fram í.)

Það er algerlega ótækt, virðulegur forseti, að ein stétt manna ákveði, með þeim hætti sem nú hefur verið gert, að hætta veiðum og hafa þannig áhrif á heildarmyndina, hafa þannig áhrif á fjölmargar aðrar stéttir og nota það sem hótun og þvingunaraðgerðir í réttindabaráttu sinni. Ríkisstjórnin hlýtur að taka á því máli og hlýtur að fara yfir það hvernig hægt er að endurheimta þær heimildir og nýta þær á annan veg; láta aðra hafa og nýta fjármagnið meðal annars til þess að styrkja við björgunarstarf sem unnið er á hálendinu og á miðunum í kringum landið.