140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Á hátíðisdögum og hér í þessum ræðustól tala talsmenn ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu verði gerðar í nafni sáttar, í nafni réttlætis, í nafni þess að eftir áratugadeilur eigi nú að koma fram með þessi frumvörp til að setja niður þær deilur. Þess vegna er það kostulegt að heyra hv. þm. Skúla Helgason og hv. þm. Róbert Marshall koma hingað með sína samfylkingarfrasa og lýðskrum eina ferðina enn og gera ekkert annað en að viðhalda ósætti og ýta undir deilur. Þeir vita, nákvæmlega eins og við hin sem hér erum, að þær aðgerðir sem útvegsmenn hafa farið í eru með stuðningi sjómanna, eru með stuðningi landverkafólks, eins og til dæmis kom fram í heimabæ hv. þm. Róberts Marshall á fjölmennum fundi í gær. Þar mættu yfir 400 manns og sýndu stuðning sinn í verki.

Þetta er leið greinarinnar til að á hana sé hlustað. Þetta er leið greinarinnar til að ná athygli stjórnvalda til að tryggja að umsagnir sem komið hafa fram við þessi frumvörp verði teknar alvarlega og til að knýja stjórnvöld til að setjast niður. Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með því sem haldið er fram um sátt þá er þarna stórt tækifæri til en sátt í greininni verður ekki þvinguð fram með einhverju offorsi eins og núverandi stjórnarflokkar halda. Hún næst aðeins ef menn (Forseti hringir.) setjast niður og ræða málin og það er það sem verið er að knýja stjórnarflokkana til að gera.