140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég bað um orðið meðal annars vegna orða formanns allsherjar- og menntamálanefndar út af forvirkum rannsóknarheimildum sem við höfum verið að fara mjög vel yfir í nefndinni — vonandi náum við að klára nefndarálitið þannig að málið komi til umsagnar. En ég get hins vegar ekki orða bundist eftir að hafa horft og hlustað á allar þessar friðardúfur frá Samfylkingunni flykkjast hingað upp í pontuna.

Ég verð að viðurkenna að nú erum við að tala undir liðnum störf þingsins. Ég sakna þingmanna Samfylkingarinnar og óska eftir því og vonast til þess að þeir láti sjá sig og láti í sér heyra, ekki síst þeir sem hafa verið á Suðvesturhorninu, þingmennirnir þar, til að tjá sig um veiðigjaldið, um málefni útvegsmanna, sjómanna og annarra. Það er alveg með ólíkindum að þegar frjáls félagasamtök leyfa sér að vera ósammála ríkisstjórninni þá sé farið hingað upp í ræðustólinn með offorsi og skammir látnar dynja yfir þingmönnum og ekki bara yfir þeim heldur líka yfir hópi útgerðarmanna sem leyfir sér að mótmæla því offorsi sem ríkisstjórnin fer fram með í veiðigjaldsmálinu og ekki síður hvað varðar breytingarnar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ef hagsmunasamtök í samfélaginu eru ekki sammála ríkisstjórninni þá er þeim einfaldlega sagt að halda kjafti og vera úti. Þannig er orðbragðið hér á þingi.

Ef hagsmunasamtök leyfa sér að vera ósammála ríkisstjórninni þá er þeim einfaldlega sagt að vera úti. (Gripið fram í.) Ég er að taka vægt til orða. Ég er bara byrjandi í orðfæri hér á þingi miðað við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem leyfir sér að tala niður heila atvinnugrein, leyfir sér að tala niður þá sem hafa starfað í greininni árum og áratugum saman og hafa skilað þjóðinni ómældum arði og hagræði fyrir íslenska þjóð og íslenskt samfélag til lengri og skemmri tíma. Við skulum hafa það hugfast að það er engin tilviljun að íslenskur sjávarútvegur er eini sjávarútvegurinn sem er ekki ríkisstyrktur, eini sjávarútvegurinn í heiminum sem hefur sýnt fram á arðbærni og hagkvæmni til skemmri og lengri tíma litið. Svo er verið að tala fólkið niður hér í þingsal. Menn ættu að skammast sín.