140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst full ástæða til að ríkisstjórnin skoði hvort ekki sé hægt að endurúthluta þeim veiðiheimildum sem ekki hafa verið nýttar í þessari viku og um þessar mundir. Það er fullkomlega eðlilegt að það sé skoðað og það er dálítið undarlegt að verða vitni að því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins bregðist við, eftir að maður hefur stungið upp á þessu, eins og þeim hafi verið tilkynnt að það yrði enginn hádegismatur, þeir bregðast ókvæða við og koma hingað upp sárir og móðgaðir. Er ekki bara verið að tala um að við nýtum þær heimildir sem til staðar eru fyrir alla? Eru ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sífellt að tala um mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið allt, ekki bara fyrir útvegsmenn heldur líka fyrir fiskvinnslufólk?

Virðulegi forseti. Ég talaði í síðustu viku við konu sem tók þátt í svonefndum auglýsingum hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Hún býr í Vestmannaeyjum og hún tjáði mér það að viðbrögðin við þátttöku hennar í auglýsingunni hefðu verið slík að hún gerði sér þá loksins ljóst að það væru miklu fleiri í Vestmannaeyjum sem væru á móti þessu kvótakerfi en hana hafði nokkru sinni grunað. (Gripið fram í: Viltu ekki láta hana …?) Ég sagði það og ég fullyrði að það er miklu meiri mótstaða við þetta kerfi í Vestmannaeyjum og víðar í sjávarbyggðum Íslands en þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera sér grein fyrir, enda held ég að þeir séu ekki í sem mestum tengslum við fiskvinnslufólkið í þessu landi eða sjómenn, reyndar þvert á móti. Ég held að það sé fullkomin ástæða fyrir ríkisstjórn Íslands til að íhuga það vandlega og hafa hraðar hendur þar um hvort ekki sé hægt að endurúthluta þeim heimildum sem ekki eru nýttar í þessari viku og um þessar mundir til annarra sem það gera og nota afraksturinn af því til að mynda til að styrkja björgunarstarfið í landinu eins og hv. þm. Jóni Gunnarssyni er svo tíðrætt um. Það er full ástæða til þess. Það vantar peninga þar. Því skyldu menn ekki gera það, hv. þm. Jón Gunnarsson? (Gripið fram í.)