140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni kærlega fyrir hans ræðu. Mjög athyglisvert er hvernig hann hnýtir þessa lausu enda saman og vísar til ríkisstjórnarinnar og sérlega þeirra orða sem nú er verið í nota í samfélaginu í samfylkingarspunanum að Sjálfstæðisflokkurinn mælist svo stór vegna þess að svo mikil umræða sé um fiskveiðistjórnarkerfið. Alveg hreint dásamlegt vegna þess að við vitum að það hefur náttúrlega verið stefnumark Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að tala það kerfi niður.

Mig langar að vísa í rit frá Vinstri grænum sem heitir Hafið bláa hafið — Áherslur og tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum. Þetta er gefið út í mars 2009.

Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs sem fram undan er. Þótt íslenskur sjávarútvegur glími nú við erfiðleika vegna mikilla skulda og versnandi efnahagsástands á sínum helstu markaðssvæðum er ljóst að möguleikar Íslendinga til gjaldeyrisöflunar og verðmætasköpunar liggja að stórum hluta í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn mun að öllum líkindum enn á ný reynast það hreyfiafl sem knýr íslenskt hagkerfi áfram þegar mest á reynir.“

Þetta eru þriggja ára gömul ályktunarorð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þarna er viðurkennt að sjávarútvegurinn sé það hreyfiafl sem knýr allt hér á landi og sé nauðsynlegt okkar hagkerfi. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvað varð til þess að þessi stefnubreyting varð hjá flokknum? Því að þeir virðast hafa verið kosnir á þing með ákveðin kosningaloforð. Nú á að rústa íslenskum sjávarútvegi allt fyrir þrjósku hæstv. (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.