140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisspurningar. Í fyrsta lagi, hvað varðar mun á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, þá er hann ekki ýkja mikill. Það munar þessum pottum, það er mesti blæbrigðamunurinn getum við sagt. Jafnframt segir hv. þingmaður að sig vanti einhvers konar mörk til að skilja hvar línan sé raunverulega hjá okkur í veiðigjöldum. Það er ljóst að við stóðum að tillögum sáttanefndarinnar um nýtingarsamninga og veiðigjöld og það er stefnan okkar. Aftur á móti er rétt að þar kemur hvorki fram árafjöldinn á nýtingarsamningunum, sem ég tel að eigi að vera í kringum 25–30 ár, né heldur upphæðin sem á að greiða fyrir veiðigjöldin.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, án þess að það sé einhver sérstök opinber stefna Sjálfstæðisflokksins, að það er ekki fjarri lagi að notast við þær tölur sem eru í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. að veiðigjöld verði á milli 10 og 11 milljarðar miðað við afkomuna eins og hún er í dag en taki síðan breytingum eftir því hvernig afkoman verður í greininni. Ég held að að því leytinu til sé ekki nema blæbrigðamunur á stefnu þessara tveggja afla.