140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka frummælanda fyrir þessa umræðu. Fyrr hef ég nefnt þrjú atriði sem ég tel að hæstv. fjármálaráðherra þyrfti að skoða varðandi það sem hefur verið að gerast. Í fyrsta lagi að endurskoða eigendastefnuna, í öðru lagi að tryggja og styðja að sett verði ákvæði um að eitt af því sem tillit verði tekið til við sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði byggðasjónarmið og í þriðja lagi, sem hv. þm. Jón Bjarnason o.fl. hafa talað fyrir, að tryggja ákvæði í stjórnarskrá um jafnræði hvað varðar búsetu.

Ég vildi hins vegar ræða meira almennt um byggðastefnu á Íslandi. Í fjöldamörg ár, í áratugi, hefur verið rekin mjög árangursrík byggðastefna á Íslandi og hún hefur byggst á því að byggja upp í Reykjavík, á suðvesturhorninu, og hefur skilað umtalsverðum árangri. Til að tryggja aukið jafnræði á milli ólíkra landshluta verðum við að hætta þessum smáskammtalækningum sem hæstv. fjármálaráðherra var hér að tala um, svo sem eins og um pósthús á hjólum, og horfa frekar til þess hvað samvinnuhugsjónin kennir okkur. Þar skiptir mjög miklu máli að horfa til þess að tryggja að fólk geti unnið saman, að fólk hafi möguleika á því að bera ábyrgð á sjálfu sér, á sínum samfélögum, og dreifa valdi. Við höfum séð alveg gífurlega samþjöppun á valdi akkúrat hér í Reykjavík.

Það sem hefur virkað í byggðaaðgerðum hefur verið menntun í heimabyggð, vaxtarsamningarnir sem hafa gengið út á það að fólk sé sterkara þegar það vinnur saman. Ég vil hins vegar horfa til þess að við reynum í mun meira mæli að tryggja að fjármunirnir fari heim til fólksins, að fólk fái að ráðstafa skattinum sem það borgar í sameiginlega sjóði í sinni heimabyggð, í sínum landshluta, þannig að það geti sjálft haft möguleika á því (Forseti hringir.) að bera samfélagslega ábyrgð, að bera ábyrgð á sínu eigin lífi. Ég hvet menn til að kynna sér sérstaklega „The Big Society“ verkefnið sem Bretar eru með í gangi (Forseti hringir.) því að ég held að mjög margt gott sé að finna í því.