140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjónustustig á landsbyggðinni og þá ákvörðun Landsbankans að loka nokkrum útibúum þar. Við vitum að fyrir hrun hafði bankastarfsemin þanist mikið út og sú þensla var fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. En eftir hrunið hefur orðið mikil endurskipulagning í fjármálakerfinu og hefur fjöldi fólks misst vinnuna. Víða á landsbyggðinni á öll þjónusta í vök að verjast og þegar einni stoð er kippt undan hrynur annað í kjölfarið.

Landsbankinn hefur samfélagslegar skyldur sem banki allra landsmanna í meirihlutaeigu ríkisins. Honum er ekki stjórnað af ríkisvaldinu dagsdaglega, þar kemur Bankasýslan til sem skilur að hugsanleg pólitísk afskipti af daglegum viðskiptalegum ákvörðunum en greinilega þarf að endurskoða eigendastefnu ríkisins miðað við framgöngu hans í lokun útibúa vítt og breitt um landið án neins samráðs við ríki, sveitarfélög eða samstarfsaðila eins og Íslandspóst.

Auðvitað átti að leita allra leiða til að mæta þessari hagræðingarþörf með öðrum ráðum í samstarfi við þá aðila sem hefðu getað skoðað möguleika á samstarfi. Þeir möguleikar eru fyrir hendi og það er ljótur leikur hjá Landsbankanum að skella bara í lás án þess að kanna með heimamönnum, fyrirtækjum og öðrum aðilum, möguleika sem væru í stöðunni. Þannig rís banki eins og Landsbankinn ekki undir nafni, hann hefur verið í ímyndarherferð um landið og þarna hefur hann ansi mikið misstigið sig, að ég tel.