140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að hefja þessa umræðu hér vegna þess að það er mjög mikilvægt að við tölum í heild um fyrirkomulag þjónustuskerðingar á landsbyggðinni. Tilefnið er lokanir útibúa Landsbankans en það er fjölmargt annað sem við þurfum að ræða varðandi þjónustuskerðingu á landsbyggðinni, þar á meðal hvernig farið er inn í grunnþjónustuna. Mér þætti reyndar athyglisvert að hæstv. ráðherra gæfi okkur aðeins innsýn í það hvort hún tekur undir sjónarmið þeirra þingmanna sem hér hafa talað, sérstaklega hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, sem taldi að stjórnvöld ættu að beita sér í því að fá þessari ákvörðun Landsbankans breytt, og með hvaða hætti það yrði þá gert. Eða er hér um að ræða ágreining á milli ríkisstjórnarflokkanna?

Frú forseti. Við höfum upplifað það á síðustu árum að það þarf að skera niður, meðal annars í ríkisrekstri og rekstri fyrirtækja, og það bitnar í mörgum tilvikum á þeirri þjónustu sem landsmenn geta fengið. Alvarlegast er þegar verið er að skerða grunnþjónustu og þar er einna erfiðast að horfa upp á þegar verið er að minnka aðgang að til dæmis heilsugæslunni.

Það bárust af því fréttir í vikunni að verið er að loka heilsugæslunni í Vík í Mýrdal eftir hádegi þannig að þar er bara opið fyrir hádegi. Þessi breyting tók gildi fyrirvaralaust sama dag og hún var tilkynnt. Enn og aftur virðist ekki hafa verið haft nokkurt samráð. Við höfum margítrekað talað um samráðsleysið þegar verið er að fara í aðgerðir sem þessar og þetta mál er mjög alvarlegt. Hér er verið að skerða þjónustu mjög mikið og tvo daga í viku er heilsugæsla á Kirkjubæjarklaustri ekki heldur opin eftir hádegi, næsti staður er þá Hvolsvöllur og síðan á Höfn í Hornafirði.

Hér er um að ræða alvarlega skerðingu á grunnþjónustu (Forseti hringir.) og ég tel að við höfum lært það hér, bæði í fyrravetur og veturinn þar áður, að fara ekki í slíkar breytingar á grunnþjónustunni án þess að hafa samráð og reyna að finna (Forseti hringir.) aðrar leiðir.