140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:28]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og fyrir þann einhug sem kemur fram hjá öllum ræðumönnum um að þarna hafi ekki verið rétt að verki staðið, þarna hafi ekki verið farið yfir málin, þarna hafi ekki verið unnið á siðferðislega réttum forsendum og einnig út frá almannasjónarmiðum, byggðasjónarmiðum, þjónustuskyldum, viðskiptavild og öðru slíku.

Það er athyglisvert að í rökum Landsbankans fyrir þessum aðgerðum, og það kom fram í orðum hæstv. ráðherra, er talað um að ná eigi fram hagræðingu, sparnaði í rekstri bankans. Samt hafa ekki verið lagðar fram tölur aðrar en þær að hugsanlega gætu sparast einar 400 milljónir. Ég velti fyrir mér hvort húsaleigan hafi verið svona há, hvort laun þessara tveggja eða þriggja starfsmanna á hverjum stað hafi verið svona há eða — ja, þegar við veltum því fyrir okkur í samanburði við laun yfirstjórnenda bankans, hvar er verið að spara og hvaða rök eru lögð fram?

Ég legg áherslu á að að sjálfsögðu þarf að gæta hagræðis og tryggja samkeppnisstöðu þjónustustofnana eins og Landsbankinn er, en hann ber sína ábyrgð. Ég þakka fyrir það að sett verði í gang vinna til að reyna að treysta stoðir þeirrar þjónustu sem er og er verið að reyna að halda í, eins og Íslandspóst, á þeim stöðum sem hæstv. ráðherra nefndi, en ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki verði gengið enn frekar að Landsbankanum, að minnsta kosti að ráðherra og ríkisstjórn sendi Landsbankanum bréf og lýsi vanþóknun sinni á þessum vinnubrögðum og krefjist þess að vinnubrögðunum verði breytt og þetta mál tekið upp að nýju og endurskoðað. Það er það sem ég tel vera hlutverk ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og það er líka skylda Landsbankans (Forseti hringir.) og krafa íbúanna á viðkomandi stöðum að þessi mál verði endurskoðuð.