140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið sú að það fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið við lýði megi skoða og lagfæra og sníða af því ágalla. Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem lagði veiðigjaldið á þannig að hann er líka hlynntur því en Sjálfstæðisflokkurinn segir jafnhliða að það verði að skoða sjávarútveginn í heild sinni og meta þjóðhagsleg áhrif áður en menn breyta á einni stundu.

Ég get ekki og hef ekki forsendur til að taka afstöðu til tillögu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um það hvernig eigi að fara með það sem er í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Ég ítreka bara það sem ég hef sagt. Við sjálfstæðismenn áttum fulltrúa í sáttanefndinni, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Hann lagði ýmislegt gott til og stóð að þeirri sáttanefnd. Ég hef þá trú að við sjálfstæðismenn styðjum þá sáttanefnd og þær tillögur og útfærslur sem þar voru lagðar til.