140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:25]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega og málefnalega ræðu sem var fróðlegt og ágætt að hlusta á. Ég held nefnilega að það sé nokkuð breið pólitísk samstaða um kjarna málsins eins og kom fram hjá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni áðan. Það er breið pólitísk samstaða um að innheimta eigi auðlindagjald fyrir aðgang að auðlind í þjóðareigu sem er takmörkuð. Það er grundvallaratriðið.

Mín skoðun er sú að gjaldið megi ekki verða íþyngjandi og það eigi ekki að raska stöðu greinarinnar, enda er það þannig byggt upp að það taki ekki til nema þegar um er að ræða umframhagnað eftir skilgreinda ávöxtunarkröfu, afskriftir, laun og það allt. Þess vegna er spurningin sem eftir stendur forsendur gjaldtökunnar. Þar getur menn greint á og aðferðafræðin er alltaf umdeilanleg hver sem hún er en markmiðið stendur eftir. Um það er ágæt samstaða í þinginu þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé kannski óskýrastur í því máli, þ.e. að þjóðin öll fái hlutdeild í arðinum með gjaldtöku. Eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi áðan hóf Sjálfstæðisflokkurinn gjaldtökuna á sínum tíma þó að í litlum mæli væri.

Ég vildi eiginlega draga þetta fram til að sýna hvað er stutt á milli manna þrátt fyrir umræðu hér dögum saman. Það er sátt um að innheimta gjaldið. Okkur greinir á um forsendur og upphæð gjaldtökunnar nema hvað Framsóknarflokkurinn er orðinn samhliða stjórnarflokkunum eftir breytingar á fyrri tillögum stjórnarflokkanna um gjaldið. Það er orðið miklu hóflegra og skynsamlegra núna en það var áður, það er sanngjarnara og mjög í takt við það sem Framsóknarflokkurinn talar fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið eins afdráttarlaus um hvað hann fellir sig við. Hvað telur hann vera hóflegt og sanngjarnt auðlindagjald ef framlegðin er upp á 75–80 milljarða kr.? Þingmenn hans og talsmenn þurfa að færa sig nær lausninni og nefna einhverjar tölur og stærðir sem þeir geta fellt sig við.