140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það væri óskandi að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson yrði sannspár og það væri afar stutt í að við næðum hér sátt í stað sundrungar um þetta mikilvæga mál sem snýr að sjávarútvegi í landinu. Það kann að vera að stutt sé á milli manna og vonandi er það svo.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég er hlynnt því að innheimt sé veiðigjald. Sjálfstæðisflokkurinn kom því á. Við þurfum að finna þann farveg sem sátt ríkir um hjá löggjafanum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég ítreka enn og aftur að til að þessi atvinnugrein verði arðbær verður að vera hvati í kerfinu fyrir þá sem fiskinn veiða og þá sem fyrirtækin eiga að standa sig. Það verður að vera hvati til að menn séu reiðubúnir að greiða arð til samfélagsins. Þess vegna verður svokölluð auðlindarenta að vera sanngjörn.