140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að mæla fyrir breytingartillögu sem ég og hv. þm. Atli Gíslason stöndum saman að, um breytingar á lögum um veiðigjöld sem hér er verið að leggja til. Ég ætla að byrja á því að fara í gegnum þá breytingartillögu en eins og svo rækilega hefur komið fram á síðustu dögum er hér til umræðu frumvarp til laga um veiðigjöld og þar eru bæði tilgreind markmið og gildissvið í þeim efnum. Rætt hefur verið mjög ítarlega um veiðigjaldið og hvernig það skuli tekið, það skuli tekið af afla og að einhverju leyti af tiltekinni vinnslu sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Ég ætla fyrst og fremst að ræða um veiðigjaldið sjálft og lýsa því yfir að taka veiðigjalds sem slíks, sem auðlindagjalds, er ekki endilega stærsta mál í mínum huga. Meginatriðið er að sjávarútvegurinn sé til þess að efla og treysta atvinnu og byggð í landinu og skila tekjum, launatekjum og eignatekjum, til þeirra sem þar vinna og skapa líka tekjur fyrir þau samfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að öll veiðigjöldin renni beint í ríkissjóð. Reyndar fer álagningin eftir nokkuð flóknum reiknireglum og mjög hefur verið deilt um hvort þær eigi sér forsendur eða ekki, hversu vel þær séu grundaðar o.s.frv. Ég deili reyndar þeim áhyggjum sem komið hafa fram um reiknislegar forsendur þessa veiðigjalds. Ef menn fara í veiðigjald á annað borð fyndist mér rétt að gera það nánast með kílóa- eða nefskatti á hvert þorskígildistonn frekar en að vera með mjög flóknar reiknireglur. Það er mjög mikilvægt að einfaldleikinn sé sem mestur og að allar línur séu sem skýrastar, bæði til þess að kerfið virki og einnig til þess að um það skapist framkvæmdarleg sátt. Deilur geta staðið um hugmyndafræðina á bak við það en miklu máli skiptir að um framkvæmdina sé sátt og að hún sé einföld. Það tel ég kannski helsta vanda þessa frumvarps, hve flókinn bakreikning og grunnreikning er lagt upp með. Þó að ég skilji vissulega þá hugsun sem að baki er, að geta tekið tillit til vanda einstakra útgerða. En gjaldstofn eins og þessi þarf að vera einfaldur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að öll þessi veiðigjöld renni beint til ríkisins og það ráðstafi þeim. Að vísu er tilgreint, í 2. gr. frumvarpsins, um markmið með gjaldinu:

„Veiðigjöld eru lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“

Það hefur verið alveg skýr stefna af minni hálfu í umræðunum um lög um stjórn fiskveiða og breytingar að það á að standa vörð um rétt og stöðu sjávarbyggðanna sem hafa margar hverjar átt undir högg að sækja í því kerfi sem undanfarið hefur ríkt og við höfum lofað að bylta og breyta. Bæði hafa ýmsar sjávarbyggðir staðið veikar fyrir þeim lögum og reglum sem gilt hafa um svokallað kvótakerfi og hins vegar líka gagnvart því ef breytingar verða í stofnstærðum, veiðistofni o.s.frv. Við munum eftir þorskniðurskurðinum mikla sem bitnaði einmitt hvað harðast á þessum veiku byggðum.

Nú þegar á að taka veiðigjöld af veiddum fiski tel ég afar mikilvægt að þá sé einmitt horft til þess hvernig það komi við þessar sjávarbyggðir. Í þeim frumvörpum sem ég hef lagt fram sem ráðherra, þar sem gert hefur verið ráð fyrir veiðigjaldi, reyndar hóflegu, hefur verið miðað við að ákveðinn hluti renni beint til viðkomandi sveitarfélaga, sjávarbyggða sem tengjast þá viðkomandi útgerð beint. Að sjálfsögðu rennur stór hluti til ríkisins til að standa undir þeim markmiðum sem tilgreind eru í 2. gr. frumvarpsins.

Ég hef líka lagt áherslu á að veiðigjöld gengju með beinum hætti til að styrkja rannsóknar- og þróunarstarf í sjávarútvegi. Þess vegna höfum við hv. þm. Atli Gíslason, sem var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í tvö ár — samstarf okkar var mjög gott og náið, þegar ég var ráðherra, — lagt til þessa breytingartillögu:

„Á eftir 12. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðstöfun veiðigjalda.

Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:

1. 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.

2. 40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.

3. 10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.“

Við leggjum svo til að fyrirsögn III. kafla verði breytt í: Álagning, innheimta og ráðstöfun.

Í stuttri greinargerð sem fylgir þessum tillögum okkar segir, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni greiða um 80% af innheimtum veiðigjöldum og tilfærsla fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins er veruleg. Bráðabirgðaúttektir gefa til kynna að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið verða að fá forgang í að njóta afraksturs auðlinda sinna. Frumvinnslugreinarnar hafa undanfarna áratugi farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Mikilvægt er að bæði aflaheimildir og hluti tekinna veiðigjalda renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara og frekari brottflutnings íbúa. Með breytingartillögunni er því lögð til önnur og réttlátari skipting tekna af veiðigjöldum en í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að gjöldin renni öll í ríkissjóðs. Umsagnaraðilar hafa einnig bent á að ólíklegt sé að byggðaaðgerðir frumvarpsins“ — og reyndar beggja þeirra frumvarpa sem hér eru undir — „næðu þeim markmiðum sem stefnt er að. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða til að rétta af stöðu sjávarbyggða með því að tryggja þeim hlutfall tekna af veiðigjöldum. Breytingin er leið til sátta og tekur mið af þörfum sjávarbyggðanna sem hafa mörg lýst yfir áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi frumvarps. Með henni er jafnframt komið til móts við athugasemdir og sjónarmið sem bárust um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem lagt var fram á síðasta þingi (þskj. 1475, 827. mál) þar sem bent var á mikilvægi þess að horfa til búsetu og byggðasjónarmiða. Áréttað skal að við töku veiðigjalda verður að hafa hliðsjón af áhrifunum af fiskveiðistjórnarlögunum í heild. Jafnframt þarf að horfa til jafnræðissjónarmiða þegar aðgengi að einni náttúruauðlind er skattlagt sértækt umfram aðrar auðlindir.“

Frú forseti. Það er mín skoðun að annaðhvort hefði átt að leggja þessi frumvörp fram saman ellegar, eins og hefur verið í fiskveiðistjórnarlögum, að veiðigjaldið hefði verið hluti af frumvarpi um fiskveiðistjórn. Það er ekki hægt að líta þannig á að veiðigjaldið sé sjálfstætt frá annarri skipan fiskveiðistjórnarmála. Fiskveiðar eru ekki bara skattstofn sem slíkur heldur hluti af atvinnu- og framleiðslustarfsemi Íslendinga. Því finnst mér óeðlilegt að leggja fram sérstakt frumvarp til laga um veiðigjald, það hefði átt að vera hluti af frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða eða nýjum fiskveiðistjórnarlögum. Þannig var það í þeirri vinnu sem unnin var af hálfu mín sem ráðherra á sínum tíma og í umræðum þá var farið rækilega í það að veiðigjöld væru hluti af heildarlögum um stjórn fiskveiða og ættu að vera þar inni.

Ég vil líka leggja áherslu á að þegar veiðigjöld eru tekin með þessum hætti út úr skapast sú umræða hvort um er að ræða gjald fyrir aðgang að auðlindinni eða skatt á þá sem veiða hana. Umræðan um það hvort þetta er skattur eða auðlindagjald verður þá í stjórnsýslulegri óvissu og það tel ég miður í meðferð á þessu máli en þannig er það sett fram hér í þinginu.

Ef menn vilja leggja á aðgengisgjald að sjávarauðlindinni, af hverju eru ekki samtímis slík gjöld lögð á orkuna, á náttúruperlur — ferðaþjónusta er orðin stóratvinnugrein — og á náttúruauðlindir í landbúnaði? Þarna skortir verulega samhengi í hlutina en ég undirstrika að ég er í sjálfu sér ekki hlynntur gjaldlagningu á náttúruauðlindir með þessum hætti, ég tel að auðlindin eigi að skila sér í öflugu samfélagi, öflugu mannlífi og í tekjum fyrirtækja og einstaklinga.

Sjávarútvegurinn er ein meginstoð, grunnstoð, atvinnulífsins víða út um land og ekki hvað síst í þeim byggðum sem hafa átt undir högg að sækja í þeirri þjóðfélagsþróun sem verið hefur undanfarin ár. Stjórnvöld bera sína ábyrgð í þeim efnum. En taka sérstaks veiðigjalds af þessari auðlind, frá þessum sjávarbyggðum, inn í ríkissjóð er því ósanngjörn og þessi breytingartillaga er einmitt flutt til að árétta það og leggja til að skipting þessa veiðigjalds verði á þann veg að sjávarbyggðirnar fái eðlilega hlutdeild sína í því.

Ég bendi líka á að sú breytingartillaga sem við hv. þm. Atli Gíslason flytjum er líka í samræmi við 28. gr. fiskveiðistjórnarfrumvarpsins sem lagt var fram á síðasta þingi vorið 2011. Það frumvarp var samþykkt af ríkisstjórn og fór þá fyrir þingið þó svo að sumir hafi seinna meir hlaupið frá því. Það var engu að síður samþykkt. Eitt af grunnatriðunum sem ég setti í það frumvarp var það að hafa yrði byggðasjónarmið að leiðarljósi við samningu fiskveiðistjórnarfrumvarpa og við mat á áhrifum þeirra á sjávarbyggðirnar.

Áður en ég vík að öðrum þáttum vil ég enn á ný vitna í þá álitsgerð sem ég sem ráðherra bað Vífil Karlsson um að vinna, en hann er hagfræðingur og samfélagsfræðingur og lektor við Háskólann á Bifröst, að því er ég best veit. Hann hefur starfað mjög mikið með sveitarfélögum og landshlutasamtökum við að meta áhrif stjórnvaldsaðgerða á möguleika og þróun byggðar. Hann hefur tekið með mjög afdráttarlausum hætti undir sjónarmið margra sveitarfélaga sem telja að með því að skattleggja landsbyggðarsamfélögin á þann hátt sem hér er lagt til, með því að allt veiðigjaldið renni í ríkissjóð, sé í raun lagður á landsbyggðarskattur, viðbótarskattur og -álögur á íbúana. Í ljósi rökstuðnings hans er þessi breytingartillaga flutt um að hluti af veiðigjöldunum renni til sjávarbyggðanna, til sveitarfélaganna aftur.

Við höfum líka lagt til að einnig megi skoða hvort þetta megi fara í gegnum jöfnunarsjóð, að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ráðstafi þessu fjármagni eftir skilgreindum reglum til sjávarbyggða, sveitarfélaga og landshlutasamtaka. En ég ætla að vitna hér til álitsgerðar Vífils Karlssonar, með leyfi forseta:

„Framan af 20. öldinni var mikill vöxtur í frumvinnslugreinunum. Almenningur lét ekki sitt eftir liggja heldur fylgdi uppbyggingunni eftir og byggði sér heimili en sveitarfélögin byggðu upp nauðsynlega þjónustu af ýmsu tagi. Frá upphafi níunda áratugarins hafa frumvinnslugreinarnar farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Þessi samfélög hafa setið uppi með fjárfestingar sem heft hafa uppbyggingu á þeirri þjónustu sem íbúar gera kröfu til í dag. Afleiðingarnar eru þær að myndast hefur stór gjá á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu að þessu leyti sem hefur í raun stigmagnað vandann. Möguleikar þessara sveitarfélaga til að auka tekjur sínar fara stöðugt þverrandi þar sem íbúum fjölgar mjög lítið eða jafnvel fækkar.

Þegar horft er til uppruna og ráðstöfunar opinbers fjármagns benda bráðabirgðaúttektir til að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Það grefur undan staðbundnum hagvexti á landsbyggðinni. Þessu þyrfti að vera öfugt farið á svæðum sem farið hafa í gegnum þá miklu endurskipulagningu og þrengingar sem þeim fylgdu frá upphafi níunda áratugarins og nefndar voru áðan.

Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga. Með því er báðum sjónarmiðum mætt, þ.e. í fyrsta lagi að stuðla að því að ekki verði enn frekari samdráttur á landsbyggðinni og í öðru lagi að veiðigjaldið fari frá þeim sem nýta auðlindina og til þjóðarinnar í gegnum rekstur hins opinbera og almannaþjónustu.

Þetta er einnig mikilvægt í ljósi þess að fjárhagur margra þessara sveitarfélaga er ekki góður af þeim sökum sem áður sagði og mörg þeirra nutu ekki ávaxta svokallaðs góðæris. Þá var gengi íslensku krónunnar sterkt um tíma og nærri sögulegu hámarki sem setti enn meiri pressu á útflutningsgreinar eins og sjávarútveginn. Samhliða skerðingu í aflaheimildum hafa þessi samfélög því varið hendur sínar með skuldsetningu til að halda fyrirtækjunum gangandi og svigrúm til annarra framkvæmda hefur verið í lágmarki.

Þess utan er þetta mikilvægt til að stuðla að dreifðri búsetu í landinu. Ísland er ríkt af náttúruauðlindum sem hefur alltaf verið forsenda fyrir byggð í landinu. 90% allra útflutningstekna í landinu koma frá atvinnugreinum sem nýta sér náttúruauðlindirnar: Sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta (frítímaiðja). Færa má rök fyrir því að starfsemi þessara atvinnugreina yrði mun óhagkvæmari ef hún væri ekki stunduð dreift um landið. Nútímasamfélagi verður ekki haldið úti á Íslandi nema með öflun erlends gjaldeyris og við núverandi aðstæður skiptir hvert pund máli.“

Og áfram segir Vífill Karlsson:

„Þegar hugað er að endurgreiðslu veiðigjaldsins til sveitarfélaganna þyrfti að finna hlutfall, h, fyrir hvert og eitt þeirra sem tæki mið af staðbundnu ráðstöfunarhlutfalli — þ.e. hversu háu hlutfalli íbúarnir ráðstafa af tekjum sínum innan sveitarfélagsins. Þetta hlutfall lækkar eftir því sem nær dregur höfuðborgarsvæðinu en þetta hlutfall mældist 74% (af ráðstöfunartekjum) á Austfjörðum fyrir rúmum 10 árum svo dæmi sé tekið.“

Síðan fylgja með tillögur hans að útreikningi á skiptingu þessa veiðigjalds eftir sveitarfélögum og legu þeirra.

Mér finnst mjög mikilvægt í þessari umræðu og í því hvernig við nálgumst töku þessa veiðigjalds að menn geri sér grein fyrir því hvaðan verið er að taka þessa fjármuni og hverjir það eru sem borga. Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum og á Austfjörðum búa við stórhækkandi flutningskostnað sem skerðir enn meira samkeppnisstöðu þeirra, bæði fyrirtækjanna og íbúanna á viðkomandi stöðum. Margar þessar byggðir búa líka við hæsta raforkuverð á landinu fyrir íbúa sína og einnig fyrirtæki á viðkomandi svæðum. Þrátt fyrir yfirlýsingar af hálfu stjórnvalda, og ekki bara þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur ríkisstjórnarinnar sem sat þar á undan og þar á undan, það er eins og þetta hafi verið lögmál, og þrátt fyrir mjög hátíðleg loforð um að koma með beinar jöfnunaraðgerðir til að rétta þessa samkeppnisstöðu af og láta alla búa við jöfn skilyrði hvað varðar aðgengi, fjarskipti, samgöngur, raforku, skólakostnað o.s.frv. hefur það ekki gengið eftir og fjarri því. Hvað varðar til dæmis eldsneytiskostnað vegna flutninga er samkeppnisstaða landsbyggðarinnar mjög skert.

Þó að hér séu gefnar yfirlýsingar um að þeir fjármunir sem ætlunin er að taka inn í ríkissjóð eigi svo að renna beint til jöfnunaraðgerða, hefur það sýnt sig að ríkissjóður er svo upptekinn af mörgum öðrum verkefnum, brýnni verkefnum, einmitt á höfuðborgarsvæðinu, að ekki hefur náðst að standa við þau loforð sem gefin hafa verið. Það er ekki bara þessi ríkisstjórn heldur ríkisstjórnir sem setið hafa á undan.

Ég get líka nefnt raforkuna. Þegar ný raforkulög voru samþykkt á sínum tíma, sem ég var mjög andvígur, þegar markaðsvæðing raforkukerfisins var talin eitt brýnasta málið, átti að koma fjármagn úr ríkissjóði til að jafna raforkuverð um allt land. Það hefur ekki gengið eftir og við erum fjær því nú ef eitthvað er. Gjaldtaka eins og hér er lagt upp með, að gjaldið eigi að renna beint í ríkissjóð og að taka eigi það frá samfélögum úti um landið er mjög hættuleg og andstæð minni stefnu og minni hugsun.

Þessi tillaga er flutt vegna þess að ég tel það grundvallaratriði að ekki sé farið svona inn í meginatvinnugrein landsmanna, landsbyggðarinnar og sveitarfélaganna sem eiga allt sitt undir afkomu í þessum greinum, og þessi gjöldin tekin án þess að þau renni til baka í tilgreindum hlutföllum. Við höfum skattkerfið til að skattleggja fyrirtæki og einstaklinga, hagnað þeirra og arð. Þar gilda skattalög og það verða aðrar atvinnugreinar að sætta sig við og gera það. Ef menn vilja breyta skattalögum til að ná frekar til arðs og hagnaðar í sjávarútvegi þá eiga menn bara að skoða það en ekki að fara út í svona beina gjaldtöku á samfélögin, sjávarbyggðirnar, án þess að gera sér grein fyrir því hverjar afleiðingarnar verða. Ef tillaga okkar yrði samþykkt mundi hún koma verulega til móts við þessi sjónarmið og sætta íbúa landsins vítt og breitt um landið við þessa gjaldtöku þar sem þeir sjá þá greinilega að hún skilar sér til baka til samfélaga þeirra. Ég tel þetta grundvallarmál og legg áherslu á það.

Frú forseti. Ég vil í þessu efni líka víkja að rannsóknastarfseminni. Það þarf að tryggja grunn rannsókna- og þróunarstarfsemi í sjávarútvegi og matvælavinnslu og reyndar í öllum grunnþáttum atvinnulífsins. Eftir að hafa kynnst starfsemi verkefnasjóðs sjávarútvegsins, AVS-sjóðsins sem var ætlað að styrkja verkefni sem stuðla að auknu verðmæti íslensks sjávarfangs og efla samkeppnishæfni sjávarútvegs, fiskeldis og þróunarstarf því tengdu, verð ég að segja að það er gríðarlega mikilvægt að þetta þróunar- og rannsóknastarf eigi sér fastan grunn. Það er í hæsta máta eðlilegt að greinin, ein stærsta grein okkar, sjávarútvegurinn, taki þátt í að fjármagna þann sjóð. Þá er líka mjög mikilvægt að viðkomandi sjóður fái að starfa sem næst atvinnugreinunum og það hefur hann gert á undanförnum árum. Þrátt fyrir takmarkað fjármagn hefur hann skilað miklum árangri og mikið þróunarstarf verið unnið. Sjóðurinn hefur verið stuðningur við þróunarstarf í sjávarútvegi.

Í minni tíð sem sjávarútvegsráðherra lagði ég sérstaka áherslu á fullvinnslu afla og að vinna úr hinum ýmsu aukaafurðum, sem menn kölluðu svo, í sjávarútvegi. Ég minnist þess þegar fyrst kom skýrsla til ríkisstjórnarinnar um hver væru helstu sóknarfærin í íslensku atvinnulífi og þá var ekki minnst á landbúnað og sjávarútveg. Ég gerði strax mjög alvarlegar athugasemdir við það, taldi að innan sjávarútvegs og landbúnaðar væru einmitt gríðarleg sóknarfæri sem hefur líka komið á daginn. Skýrslunni var þá breytt en ég hefði þó viljað sjá enn sterkari áherslur af hálfu ríkisstjórnar sem ég sat í þá í þeim efnum.

Þegar umræða kom upp um að leggja AVS-sjóðinn, rannsóknasjóð sjávarútvegsins, inn í aðra miðstýrða sjóði — gott og vel með góða sjóði eins og Rannís og aðra slíka sjóði sem hafa skilgreind verkefni — lagðist ég alfarið gegn því og sagði að það væri gott að þessir sjóðir ættu með sér gott samstarf, bæði á vísindalegum og verkefnalegum grunni, en ekki mætti steypa þeim saman í einn stóran, miðstýrðan sjóð. Þá voru ekki allir sammála mér, það var meira að segja hart sótt af ákveðnum félögum mínum í ríkisstjórn að AVS-sjóðurinn, rannsóknasjóður sjávarútvegsins, yrði lagður niður og settur þar inn. Ég lagðist afdráttarlaust gegn því og ég er stoltur af því að hafa þennan tíma staðið vörð um rannsóknasjóð sjávarútvegsins. Þess vegna ítreka ég, og það er í tillögum mínum hér, að hann verði skilgreindur sem sjálfstæður sjóður. Í vinnu okkar hv. þm. Atla Gíslasonar í sjávarútvegsmálum var búið að vinna drög að frumvarpi til laga um rannsóknasjóð sjávarútvegsins sem var ætlað að fylgja með ef Alþingi samþykkti að hluti af veiðigjaldi rynni til sjávarútvegsins, og reyndar hvort heldur sem er. Þá hefði verið til sérstakt frumvarp sem treysti stöðu rannsóknasjóðs sjávarútvegsins. Tillögur að slíku frumvarpi eru til.

Ég nefni þetta vegna þess að þau eru svo mörg átakamálin milli þeirra sem þekkja vel til greinarinnar, og ekki bara til þessarar greinar heldur til allra annarra atvinnugreina landsins, sem eru henni kunnugir, og þeirra sem ekki eru kunnugir en hugsa út frá áhuga sínum á að ná miðstýrðu valdi yfir einhverju. Þannig hafa þessi átök um rannsóknasjóð sjávarútvegsins verið, þar skarast sjónarmið þeirra sem vilja ná þessu með valdi, miðstýrt í einn stóran rannsóknasjóð og hinna sem eru kunnugir atvinnulífinu, kunnugir því hvað þessir sjóðir hafa haft mikið gildi og hve mikilvægt það er fyrir þróun atvinnugreinar, alþjóðlegrar samkeppnisatvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn er, að hafa slíkan atvinnuþróunarsjóð.

Ég minni á að í Noregi er þetta skipulag viðhaft. Reyndar er sá þróunarsjóður miklu öflugri og sjávarútvegurinn greiðir miklu hærri hlut inn í þann sjóð. Þá vinnur hann jafnframt að markaðsmálum. En þær þjóðir sem eiga allt sitt undir atvinnugrein eins og þessari hafa talið mikilvægt að eiga sinn sameiginlega þróunarsjóð. Slíkan sjóð átti landbúnaðurinn líka, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, en því miður var hann skorinn niður í aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, menn voru nauðbeygðir til þess. Engu að síður er það að mínu mati eitt af mikilvægustu atriðunum fyrir þróun landbúnaðar og matvælavinnslu í landinu, sem tengist fjölþættum möguleikum landbúnaðarins, að sá þróunarsjóður verði líka efldur og að atvinnugreinarnar komi að því að mynda þann fjárhagslega grunn sem þarf til að byggja upp sterkan sjóð sem snýr beint að þessari atvinnugrein.

Við höfum til dæmis séð hvernig þetta er með ferðaþjónustuna, það er atvinnugrein sem hefur vaxið mjög hratt og er orðin ein stærsta útflutningsgrein okkar. Ætli hún sé ekki nettó önnur stærsta útflutningsgrein landsins, í öðru eða þriðja sæti? Þar hefur einmitt verið kvartað stórlega undan því að aðgengi þeirra sem vinna að þróunarstarfi í ferðaþjónustu að rannsóknasjóðum hefði verið mjög takmarkað og mjög erfitt. Þar geldur greinin þess að vera ný og búa ekki yfir þeim hefðum sem margir miðlægir rannsóknasjóðir hafa gert kröfu um og sett sem forsendu fyrir umsóknum. Ég hef lagt til að ferðaþjónustan eigi sinn grunnþróunarsjóð svo að hún geti sótt þar um styrki í afmörkuð og tiltekin verkefni.

Frú forseti. Ég hef farið hér yfir það að þegar taka á upp gjaldtöku af ákveðinni atvinnugrein í meintum sértækum tilgangi umfram almenna skattlagningu verða menn að geta skilgreint til hvers. Til að hægt sé að ná sátt um slíka gjaldtöku verður hún að vera þannig að viðkomandi aðilar, sem má segja að gjaldtakan bitni á, geti samsvarað sig því sem verið er að gera. Það er ekki gert í frumvarpinu sem lagt er fram um veiðigjöld. Þar er bara alfarið, með góðum yfirlýsingum, lagt til að gjaldið fari í ríkissjóð og ríkissjóður ráðstafi því svo mildilegast eins og markmiðsgreinin segir til um. Þetta er óásættanlegt fyrir íbúa sjávarbyggðanna, íbúa og fyrirtæki sem lenda í sértækri skattlagningu. Þess vegna mæli ég afdráttarlaust með því, eins og ég hef gert í þeim frumvörpum sem ég hef flutt, að hluti af veiðigjaldi renni aftur til sjávarbyggðanna eftir beinum leiðum. Vel má finna leið gegnum landshlutasamtökin. Vel má vera að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti orðið þar millilending og ráðstafað gjaldinu til viðkomandi sjávarbyggða og landshluta samkvæmt skilgreindum kröfum. Það má vel vera og þarf bara að útfæra. En það verður engin sátt um stórfellda töku veiðigjalds af einni atvinnugrein, sjávarútveginum, sem rennur beint í ríkissjóð, ég tala nú ekki um þegar verið er að taka það af þeim samfélögum sem eiga allt sitt undir greininni.

Við getum deilt um það hvernig haldið hefur verið á málum á undanförnum árum, margt hefur ekki verið gert vel. Sjávarbyggðirnar hafa staðið veikt og misst frá sér heimildir. En ef sú útfærsla sem hér er lögð til tekur gildi mun þetta áfram bitna hart og með beinum hætti á þessum samfélögum. Ég legg því líka áherslu á að svona veiðigjöld, sértæk gjaldheimta, verði ekki aðskilin frá öðrum almennum stjórnunaraðgerðum varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu. Ég tel, þvert á vilja og óskir hinna hörðu markaðssinna, að ríkinu beri að halda uppi vegvísi um það hvernig viðkomandi atvinnustarfsemi er byggð upp og setja henni mörk, skilyrði og kvaðir. Sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið, hvort sem er á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Vesturlandi, Suðvesturlandi, Austfjörðum, Norðurlandi, Vestmannaeyjum eða á Suðurnesjum, eiga sinn rétt til að njóta afraksturs auðlindarinnar og að hún byggist þannig upp að hún treysti og efli byggð og atvinnu á viðkomandi svæði. Þess vegna er þessi tillaga okkar hv. þm. Atla Gíslasonar lögð fram um að tekjum af veiðigjöldum skuli ráðstafað á þann veg að 50% fari til ríkissjóðs, 40% til viðkomandi sveitarfélaga og samfélaga og 10% í sérstakan rannsóknasjóð. Ég tel að það sé grundvallaratriði til að sátt geti skapast um veiðigjaldatöku af því tagi sem hér er mælt fyrir.