140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég ætla að einsetja mér að virða tímamörk. Hv. þingmaður talaði talsvert um það í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að tryggja jafnræði við skattheimtu og að hér sé lögð til sérstök skattheimta á þessa atvinnugrein umfram aðrar og þess vegna hafi hv. þingmaður lagt fram breytingartillögu um það hvernig úthluta eigi þessum skatti þannig að 40% tekna af veiðiskattinum fari beint til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skipið er skráð.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að færa inn í íslenska löggjöf samsvarandi ákvæði um útdeilingu skatttekna ríkisins varðandi önnur svæði og aðra landshluta og skattheimtu almennt. Telur hv. þingmaður rétt að þeim sköttum sem innheimtir eru almennt af þeim íbúum og fyrirtækjum til dæmis á Suðurlandi verði í meira mæli ráðstafað sérstaklega til landshlutasamtaka á Suðurlandi?

Ég spyr vegna þess að þær byggðir sem standa hvað höllustum fæti í landinu eru byggðir líkt og Skaftárhreppur þar sem fólksfækkun hefur verið mikil og aldur íbúanna hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Engar sértækar aðgerðir virðast vera í pípunum af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Reyndar hafa ýmsir hv. þingmenn talað mikið um svokallaða IPA-styrki sem fara í verkefnið um Kötlu jarðvang sem er á þessum slóðum en það er ekki til þess gert að efla byggðina eitt og sér þótt það verkefni sé ágætt út af fyrir sig. Mig langaði að spyrja almennt: Telur hv. þingmaður rétt að breyta skattkerfi okkar og úthlutun skatta sem innheimtir eru á þennan hátt?