140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skattheimtan er fyrst og fremst til þess að jafna aðstöðu fólks, ríkið innheimtir skatta og síðan er ríkinu skylt að jafna aðstöðu fólks. Við þekkjum það erlendis frá, ég held að það sé enn við lýði t.d. í Norður-Noregi og Norður-Svíþjóð, að skattalögum er beitt þannig að þeir sem búa fjærst frá stærstu þjónustukjörnunum fá stuðning í gegnum skattafslátt. Þetta er þekkt víða um lönd, fyrirtæki fá endurgreiddan hluta af fjarlægðarkostnaði til að jafna aðstöðu. Þetta er því mjög þekkt og ég tel að við eigum að horfa til miklu ríkari jöfnunaraðgerða, en þá megum við ekki byrja á því að taka það út úr viðkomandi samfélagi nema að vel athuguðu máli. Í tilfelli Skaftárhrepps tel ég að þar ættu einmitt að koma til sértækar aðgerðir. Þarna er gríðarlega öflugt og gott landbúnaðarland á mörgum sviðum, þarna eru náttúrlega miklir möguleikar til ferðaþjónustu, en þegar grunnurinn er orðinn svona veikur er erfitt að sækja fram af þeim sem búa þar, en margir eru að gera þar mjög vel eins og við þekkjum.

Ríkinu og okkur ber að hafa hið vökula auga á landinu öllu og íbúunum á öllu landinu, ekki bara hið þrönga auga hér á suðvesturhorninu. Það tel ég að skorti verulega á. Lokanir Landsbankans á útibúum núna úti um land sýna hvað sjóndeildarhringurinn er að verða afar þröngur og það finnst mér líka birtast í þessum frumvörpum um sjávarútveg sem hér eru til umræðu. Þar greinir verulega á við þau frumvörp sem ég vann að (Forseti hringir.) og þau sem hér eru lögð fram, þó svo að margt sé að sjálfsögðu sameiginlegt.