140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að hún sé mjög brýn og gott að hún skuli geta farið fram hér í dag. Ég vil líka þakka hv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fyrir innlegg hans. Ég held að það sé rétt að opnað verði á þann möguleika að stofnfjáreigendur geti leyst til sín þá sparisjóði sem standa undir sér, en ég staldraði eilítið við fullyrðingar um að sparisjóðirnir verði að geta staðið undir sér. Við þurfum að horfast í augu við það að miðað við það lagaumhverfi sem sparisjóðirnir búa við er afar óhagkvæmt að reka þessar litlu einingar.

Við höfum á undanförum árum tekið upp þær samkeppnisreglur sem hafa komið frá Evrópusambandinu nánast gagnrýnislaust. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að margar af þessum reglum eiga ekki við hinn íslenska veruleika. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og sparisjóðirnir verða að hafa möguleika til að reka bakvinnslu og tölvuver einhvern veginn á sameiginlegan máta, eitthvað sem er bannað samkvæmt lögum í dag.

Það er hryggilegt að horfa til þess að mörg smærri fjármálafyrirtæki hafi farið niður í kjölsogi stóru bankanna. Einnig að samþjöppun hafi aukist um 50% og að verið sé að loka útibúum hjá Landsbankanum víðs vegar á landinu.

Ég held að við ættum að horfa dálítið til þess núna að Fjármálaeftirlitið er að verða að einhverju risabákni með yfir 2 milljarða á fjárlögum þessa árs. Þar starfa nú um 130 starfsmenn en störfuðu 30 fyrir hrun. Það var vissulega lítið en þegar fjármálakerfið hefur (Forseti hringir.) skroppið saman um 90% held ég að við séum að leggja heldur (Forseti hringir.) mikið í eftirlitskerfi sem við þurfum að taka upp samkvæmt reglum (Forseti hringir.) frá Evrópusambandinu.