140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir hrun átti sér stað mikið raðeignarhald og krosseignarhald þannig að eigið fé allra hlutafélaga á Íslandi blés út eða mjög margra og þar af sérstaklega bankanna og sparisjóðanna. Þegar hrunið varð féll þetta saman, þetta loft, og varð að engu og eftir stendur að ríkið er búið að taka yfir flesta stærri sparisjóðina. Sumir hafa verið látnir fara í gjaldþrot sem mér finnst miður, eins og Spron, og ríkið tók yfir bankana líka.

Nú er það þannig að það má leiða allt vald í þessum stærstu bönkum og sparisjóðum, stærstu sparisjóðum, til ríkisins. Fjármálaeftirlitið tilnefnir skilastjórnirnar, skilastjórnirnar tilnefna bankaráðin í bönkunum og þannig hríslast valdið niður og efst situr ríkið. Íbúðalánasjóður heyrir líka undir ríkið. Það eru eingöngu lífeyrissjóðirnir sem maður getur sagt að séu á vissan hátt sjálfstæðir gerendur enn þá, en þar er líka heilmikil tilhneiging til að seilast til valda af ríkinu. Svo eru einstaka litlir sparisjóðir úti á landi sem hafa lifað af.

Ég held að við verðum að stefna að því að flytja þetta vald frá ríkinu. Það er ekki heilbrigt og ekki gott að stjórnmálamenn stýri öllu fjármálakerfinu í landinu. Ég held að menn þurfi að stefna að því að selja bankana, reyna að selja stofnbréf í sparisjóðunum, en áður en menn geta gert það verður að breyta lögum um raðeignarhald og krosseignarhald. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þann möguleika að bönkunum, sparisjóðunum og hlutafélögum almennt verði stolið frá minni sparifjáreigendum. Ég kalla það að stela frá minni sparifjáreigendum þegar með raðeignarhaldi og krosseignarhaldi völd eru færð í burt og einhverjir aðilar taka yfir fyrirtækin í krafti þess að misnota hlutafélagaformið.